Blaðamannaferð með svissneska flugfélaginu Edelweiss
Tilefnið var að Edelweiss flugfélagið byrjar að fljúga til Akureyrar í júlí. Edelweiss flýgur nú þegar til Keflavíkur en vildi nýta tækifærið og kynna Suðurland betur. Með í för voru handvaldir blaðamenn af Edelweiss og því nokkuð stór nöfn sem voru með í för. Blaðamennirnir komu meðal annars frá fjölmiðlum á borð við Sonntagszeitung (Sviss), Blick (Sviss), Vorarlberger Nachrichten (Austurríki), Corriere della Sera (Ítalía) og Schwäbische Zeitung (Þýskaland).
Hópurinn byrjaði ferðina á Suðurlandi daganna 17 – 20 maí og ferðaðist allt frá Eyrarbakka til Vestmannaeyja og endaði ferðina svo á Vík áður en haldið var norður þar sem ferðin hélt áfram. Starfsmenn Markaðsstofu Suðurlands fylgdu blaðamönnunum hvert fótmál og kynntu og sögðu frá því helsta sem fyrir augu bar.
Fyrsta daginn var farið Í Hestamiðstöðina Sólvang þar sem hópurinn fékk að hitta íslenska hestinn og fræðast um sögu og sérkenni hans. Hópurinn fékk svo gott að borða í matarferð um Selfoss á vegum Selfoss Town Tours.
Annan daginn var ferðinni heitið til Vestmannaeyja með Herjólfi. Í Vestmannaeyjum fengu blaðamennirnir svo sannarlega að kynnast íslenskri veðráttu með öllum sínum árstíðum á sama deginum. Þrátt fyrir veðrið skemmti hópurinn sér konunglega en þau fengu skoðunarferð um Heimaey á vegum Vikingtours. Eldheimar og Sea Life Trust Beluga Whale Sanctuary voru heimsótt ásamt því að hópurinn borðaði hjá Einsa Kalda, Slippnum og Næs. Hópurinn var hæstánægður með móttökurnar í Eyjum og gestrisnina sem einkennir heimafólkið þar.
Þriðja daginn var haldið úr Eyjum og til Víkur þar sem byrjað var á einstakri sýningu hjá Lava Show og borðað þar á eftir á Berg restaurant á Hótel Vík. Eftir frábæran og staðgóðann kvöldverð hélt hópurinn í bjórsmökkun í Smiðjuna og kvöldið endaði svo í Reynisfjöru þar sem hópurinn upplifði kraft náttúrunnar ásamt því að myndefni var tekið upp til kynningar.
Daginn eftir var svo farið í íshelli í Kötlu með Southcoast Adventure þar sem hópurinn fékk einstaka upplifun í fínasta veðri og þaðan haldið til Reykjavíkur þar sem blaðamennirnir áttu bókað flug norður í land. Á leiðinni var stoppað á nokkrum náttúruperlum þar sem hópurinn fékk að njóta hluta þeirrar fegurðar sem landshlutinn hefur upp á að bjóða.
Við hjá Markaðsstofunni viljum koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku á móti okkur og hjálpuðu til að gera þessa ferð að upplifun sem blaðamennirnir gleyma aldrei.