Faghópur sveitarfélaga kemur saman
Faghópur sveitarfélaga á Suðurlandi um ferðamál samanstendur af fulltrúum sveitarfélaga sem eru í samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands. Hópurinn hittist einu sinni í mánuði og oftast á fjarfundum. Ekki hefur gefist tækifæri til að hittast í persónu í nokkurn tíma vegna Covid 19 og anna. Nú var þó tækifæri til að hittast og ákvað hópurinn að hittast í Vík í þetta skiptið.
Faghópnum er m.a. ætlað að efla samstarf sveitarfélaga á Suðurlandi og MSS um ferðamál og miðla upplýsingum um ferðamál milli svæða, sveitarfélaga, og MSS.
Heimsóknin hófst á Kötlusetri þar sem Harpa forstöðumaður og faghópsmeðlimur kynnti starfsemi Kötluseturs og fór yfir helstu verkefni sem framundan eru. Hópurinn fór einnig yfir atvinnuþróun og nýsköpun í landshlutanum.
Eftir smakk á makkarónum frá Vincent Cornet sem rekur Arctic Macaroons, fór hópurinn í göngu eftir Menningarhringnum í Vík upp á Bakkabraut í átt að Reynisfjalli þar sem Harpa fræddi hópinn um nýjan útsýnispall sem á að rísa í hlíðum fjallsins. Þá næst gekk hópurinn í Syngjandann, útivistarsvæði Víkurbúa og skoðuðu Gömlu Rafstöðina, vatnsaflsvirkjun sem heimamenn gerðu nýlega upp og komu í gagnið. Rafstöðin nýtist til að lýsa upp útivistarsvæðið og hefur þannig skapast nýr áningarstaður fyrir gesti og heimamenn.
Hádegismatur og fundahöld fóru fram á veitingastaðnum Suður-Vík og áður en heim var haldið heimsótti hópurinn Prjónastofuna Kötlu sem hjónin Beata og Marek stofnuðu og hafa rekið í nokkur ár. Vörurnar þeirra eru úr 100% íslenskri ull og byggja á áralangri hefð fyrir framleiðslu prjónavöru í Mýrdal.
Það sem stóð upp úr á þessum faghópsfundi var hversu mikil gróska og nýsköpun er framundan í ferðmálum í landshlutanum og líka þeim áskorunum sem fylgir fjölgun ferðamanna, svo sem aðgengismál, gisting og íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækja. Hópurinn hafði um nóg að ræða og er ljóst að ekki verður skortur á umræðuefni fyrir næsta fund faghópsins.
Faghópinn skipa:
Ásborg Arnþórsdóttir - Uppsveitir Árnessýslu
Hrönn Jónsdóttir - Skeiða- og Gnjúpverjahreppur
Árný Lára Karvelsdóttir
Eiríkur Vilhelm Sigurðarson
Einar Kristján Jónsson - Skaftárhreppur
Harpa Elín Haraldsdóttir - Mýrdalshreppur
Jóhannes Marteinn Jóhannesson
Árdís Erna Halldórsdóttir - Hornafjörður
Hulda Kristjánsdóttir - Flóahreppur
Valtýr Valtýrsson - Ásahreppur
Ólafur Rafnar Ólafsson - Árborg
Ásamt starfsfólki Markaðsstofu Suðurlands