Ferðamennska eftir COVID
Á streymisfundi Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins fjallaði Peter Strub frá Studiousus um „Ferðamennsku eftir Covid“. Erindið var m.a. byggt á könnun meðal sérfræðinga í ferðaþjónustu í Þýskalandi sem og djúpri þekkingu og góðu innsæi fyrirlesara, en auk áratuga reynslu af ferðaþjónustu hefur Peter ferðast til 196 landa og spilað golf í 157 löndum. Um tvö þúsund gestir koma árlega til Íslands á vegum ferðaskrifstofu hans, Studiousus.
Samkvæmt könnun Studiousus á meðal viðskiptavina sinna, hyggja 56% á ferðalög árið 2021. Fyrirsjáanleiki er minni en áður en Þjóðverjar virðast nú bóka ferðir með styttri fyrirvara en áður og hafa einungis 20% þegar bókað ferð á árinu. Þá er Ísland í tíunda sæti af 165 löndum, efst Norðurlandanna, sem áfangastaður sem ferðmenn vilja heimsækja innan árs. Ferðamaðurinn er líklegur til að vanda val á áfangastað og leitar eftir öryggi. Eins er talið að ferðatími muni skipta máli og er þar miðað við 4 klukkustundir að hámarki í flugvél.
Í erindinu kemur fram að líklegt sé að september 2021 verði sá mánuður sem ferðalög fara rólega af stað með það sem kallast má í dag, eðlilegum hætti. Hann bendir á möguleg tækifæri fyrir minni fyrirtæki og sérhæfðari ferðaþjónustu eins og t.d. norðurljósaferðir með haustinu. Einnig telur Peter líklegra að fólk blandi í auknum mæli saman fjarvinnu og ferðalögum (workation) og dvelji lengur á sama stað.
Hægt er að sjá upptöku af fundinum hér