Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Jólatré liðinna tíma

Þegar jólatré bárust til Íslands um miðja 19. öld þurftu landsmenn að láta hugvitið ráða. Smíðuð tré úr spýtum skreytt með lyngjurtum, kertum og sælgæti urðu fljótt hluti af jólahátíðinni.
Jólatré á sýningu í Húsinu á Eyrarbakka.
Jólatré á sýningu í Húsinu á Eyrarbakka.

Jólatréð, miðpunktur jólaskreytinga nútímans, barst ekki til Íslands fyrr en um miðja 19. öld. Á þeim tíma var erfitt að nálgast slík tré á Íslandi og því brugðu landsmenn á það ráð að smíða sín eigin jólatré. Þau voru einföld og látlaus, gerð úr spýtum og skreytt með lyngjurtum, kertum, eplum og sælgæti. 

Jólasýning í Húsinu á Eyrarbakka

Saga íslenska jólatrésins endurspeglar hugmyndaflug og handverk þjóðarinnar. Í Húsinu á Eyrarbakka er sett upp jólasýning ár hvert þar sem skoða má handsmíðuð tré og jólaskraut liðinna tíma. Elsta jólatré sýningarinnar var smíðað árið 1873 af Jóni Jónssyni bónda í Þverspyrnu. Tréð var gjöf til Kamillu Briem, prestsmaddömu í Hruna, og er nú til sýnis ásamt eftirlíkingu sem skreytt er með lyngi til að sýna upprunalegt útlit þess.

Sýningin í Húsinu býður upp á fjölbreytt safn af gömlum íslenskum jólatrjám – bæði handgerðum og verksmiðjuframleiddum. Meðal annars er þar að finna tré frá árinu 1945, með jólaseríu framleiddri á Reykjalundi. Tréð var notað í Litlu-Sandvík í Flóa fram til ársins 1990 og hefur varðveist sem hluti af sögu jólaskreytinga á Íslandi.

Í þá daga snérust jólin um samveru og þakklæti. Litlu hlutirnir voru mikilvægir í hugum fólks og nostrað var við hvern hlut. Gömlu íslensku jólatrén bera með sér einfaldleika og fegurð. Sköpunargleðin var notuð til að færa ljós og hlýju í svartasta skammdegið.

Eins og að hverfa aftur í tímann

Það er áhugavert að velta fyrir sér að hversu miklu leyti tímarnir hafa breyst. Að ganga inn í Húsið á Eyrarbakka er eins og að hverfa um stundarsakir aftur í tímann. Þegar hver hlutur var sem gull og passað var upp á hvert húsgagn og hverja flík. Eigur gengu á milli kynslóða og voru lagaðar ef þær létu á sjá. Í tímaleysi nútímans er stundum gott að staldra við og leiða hugann að lífi forvera okkar. Kannski getum við lært eitthvað af þeim.