Norrænar vinnustofur
Ragnhildur Sveinbjarnardóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands sótti vinnustofur í Ósló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn um mánaðarmótin febrúar/mars þar sem fulltrúar Íslands, Grænlands og Færeyja kynntu það helsta sem þessi lönd hafa upp að bjóða.
26.04.2023
Í fylgd með hópnum var færeyskur kokkur sem matreiddi og bauð upp á ýmsa rétti frá þessum þremur þjóðum. Um 120 aðilar voru skráðir á vinnustofurnar þrjár og átti framkvæmdastjóri góða fundi. Að vanda var mikill áhugi á Suðurlandi og fyrirspurnirnar af ýmsum toga, flestir þekktu Ísland frekar vel en vildu fá að heyra af nýjungum á svæðinu. Auk þess var nokkuð um sérhæfðari spurningar sem snertu meðal annars funda/ráðstefnuaðstöðu, hugmyndir fyrir hvata- og fyrirtækjaferðir og einnig var að sögn nokkurra fulltrúa orðið mikið um fyrirspurnir um Ísland frá Asíumarkaði.