Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Talsverð uppbygging framundan á áfangastöðum á Suðurlandi

Talsverð uppbygging er framundan á áfangastöðum á Suðurlandi en úthlutað var úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða nú í maí þar sem 17 verkefni á Suðurlandi voru styrkt og nam heildarupphæðin 177.785.509 kr.
Fossabrekkur
Fossabrekkur

Talsverð uppbygging er framundan á áfangastöðum á Suðurlandi en úthlutað var úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða nú í maí þar sem 17 verkefni á Suðurlandi voru styrkt og nam heildarupphæðin 177.785.509 kr. Mikll metnaður er hjá framkvæmdaaðilum að bæta aðgengi okkar Íslendinga og erlendra gesta okkar að náttúrunni og auka þar með upplifunina. Verkefnin eru mjög fjölbreytt en miða öll að því að styrkja innviði, auka öryggi, vernda náttúruna og auka upplifun. Til að nefna dæmi er verið að bæta innviði og aðstöðu fyrir hestaferðir á hálendinu, byggja upp og bæta gönguleiðir, bæta salernisaðstöðu, hanna og búa til útsýnisstaði auk þess að miðla upplýsingum til gesta.

Fossabrekkur í Rangárþingi ytra fengu hæsta styrkinn sem úthlutað var í ár, 55,2 milljónir króna.

Þar að auki liggur fyrir Landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir 2022-2024 og fá ýmis verkefni á Suðurlandi úthlutað úr henni fjármuni til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Í ár eru áætlaðar rúmar 522 milljónir króna í 24 verkefni á Suðurlandi og í heildina í 34 verkefni á þessum þremur árum rétt tæpur milljarður króna.
Hér má sjá Landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir árin 2022-2024.

Hér má svo sjá lista yfir verkefni sem fengu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2022:

Áhugamannafélög:

Hestamannafélagið Geysir - áningarhólf að Fjallabaki 3.áfangi – Emstruleið.

Kr. 714.900

- styrkur til að koma upp áningarhólfum frá Fossi á Rangárvöllum að Hvanngili.

Verkefnið speglar vel meginmarkmið sjóðsins, er varða náttúruvernd og öryggi ferðamanna.

Hestamannafélagið Geysir - áningarhólf að Fjallabaki, 4.áfangi - Rangárvallaafréttur/Laufaleitir.

Kr. 1.110.400

- styrkur til að stýra því hver séu stoppistöðvar milli náttstaða fyrir hrossahópa á ferð um Fjallabak. Þannig er hægt að koma í veg fyrir gróðurskemmdir á viðkvæmu landsvæði og minnka slysahættu á ferðalögum hestamanna um hálendið.

Verkefnið speglar vel meginmarkmið sjóðsins, er varða náttúruvernd og öryggi ferðamanna.

Einstaklingar:

Bjarni Jón Finnsson - Úrbætur í Þakgili vegna náttúruverndar og öryggis á gönguleiðum.

Kr. 1.764.846

- styrkur til útbúa stikur fyrir tvær gönguleiðir, merkja þær og mála. Ganga þarf gönguleiðirnar, setja stikur í stað þeirra sem ónýtar eru svo og bæta við stikum þar sem þarf t.d. á blinda punkta og víðar. Um leið þarf að útbúa skilti og leiðbeiningar um hvert skal ganga til að komast upp slóðann.

Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins, stuðlar að náttúruvernd, bætir öryggi ferðamanna og speglar því vel meginmarkmið Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.


Fyrirtæki:

Gljásteinn ehf. - Endurnýjun og bætt aðstaða fyrir fatlaða á salernisaðstöðu í Árbúðum við Kjalveg.

Kr. 5.500.000

- styrkur til að endurnýja og bæta salernisaðstöðu fyrir fatlaða í Árbúðum við Kjalveg.

Verkefnið hugar að innviðum, bætir úr skorti á grunnþjónustu og aðgengi fyrir alla. Það eykur afköst staðarins, stuðlar að náttúruvernd og rímar því vel við margar helstu áherslur sjóðsins.

Íslandshótel hf. - Lagfæring á landi við Grófarlækjarfoss, Hnappavöllum í Öræfum.

Kr. 20.722.263

- styrkur til að bæta aðstöðu við Grófarlækjarfoss. Gera varanlegt bílastæði og afmarka það. Staðurinn býður upp á mikla möguleika, stýra þarf flæði gesta um svæðið til að létta álagi á viðkvæmt land. Laga yfirborð göngustíga tengja við nýja. Ætlunin að gera vandaðan áningastað sem hæfir fossinum. Gönguleiðir upp með gilinu þarf að merkja betur og afmarka ákveðna útsýnisstaði.

Verkefnið rímar vel við áherslur sjóðsins varðandi innviðauppbyggingu, öryggi ferðamanna og náttúruvernd.

Kambagil ehf. - Göngustígur við Svartagljúfur.

Kr. 4.800.000

- styrkur í göngustíg sem mun liggja þar sem gljúfrið endar og upp að efsta fossi gljúfursins þar sem Hengladalsáin steypist ofan í gljúfrið. Þessi gönguleið mun auka fjölbreytileika svæðisins sem er nú þegar mikið sótt af ferðamönnum og heimamönnum, sérstaklega vegna gönguleiðarinnar inn í Reykjadal.

Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins og endurspeglar ágætlega helstu áherslur sjóðsins hvað varðar náttúruvernd og aukið öryggi ferðamanna á veiku svæði.

Katla Jarðvangur ses. - Bætt öryggi með nýjum útsýnisstíg og myndatökustað við Eyjafjallajökul.

Kr. 35.837.307

- styrkur til að klára að hanna og deiliskipuleggja og síðan framkvæma stíg ásamt útsýnishól þar sem umfjöllun Eyjafallagossins verður gerð góð skil.

Verkefnið er sérstaklega brýnt vegna öryggissjónarmiða en hefur einnig breiða skírskotun í aðrar megináherslur sjóðsins. Ekki er um fulla styrkupphæð að ræða

Sveitarfélög:

Ásahreppur - Gönguleið á Þóristind.

Kr. 6.240.00

- styrkur til að ,,trakka“ og stika c.a. 3 km gönguleið. Afmarka þarf slóða útaf Veiðivatnaleiðinni og afmarkabílaplan. Það þarf að hanna skilti sem þarf að vera sögu-, upplýsinga-, öryggis og náttúruskilti. Það þarf að koma skiltinu upp. Og einnig þarf að setja vegpóst þannig að gestir viti hvar þeir eiga að keyra út af Veiðivatnaleiðinni.

Bættar merkingar og stikun munu gera gestum kleift að njóta svæðisins til fulls, bæta öryggi, auðvelda aðgengi og styrkja náttúruvernd fyrir ferðamenn.

Ásahreppur - Kláfurinn á Tungná.

Kr. 6.184.000

- styrkur til að laga kláfinn þannig að hann líti þokkalega út og setja upp öryggishandrið sitt hvoru megin. Setja þarf upp söguskilti og afmarka slóða og bílastæði.

Verkefnið felst í bættu öryggi við kláfinn, bílastæðið og slóðann. Upplýsingaskiltum er ætlað stýra umferð og bæta upplifun ferðamanna. Verkefnið tónar því vel við áherslur sjóðsins.

Ásahreppur - Búðarhálsfoss í Þjórsá.

Kr. 5.200.000

- styrkur til stika veginn á hálsinum, setja þarf vegvísa þar sem er beygt út af veginum inn á vegslóða í vestur í átt að ánni. Sá slóði er keyrður og þá þarf að afmarka plan þar sem væri annað upplýsingaskilti. Þaðan þarf síðan að stika gönguslóða niður að fossinum. Það þarf að laga akstursslóðann örlítið svo ekki sé verið að keyra út fyrir hann þegar bleyta er á veginum. Aðeins þarf að laga afmörkun bílastæðis. Hanna og setja þarf upp söguskilti.

Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins og endurspeglar ágætlega helstu áherslur sjóðsins hvað varðar náttúruvernd og aukið öryggi ferðamanna á viðkvæmu svæði.

Ásahreppur - Ganga fyrir alla á Vatnsfell.

Kr. 6.240.000

- styrkur til gera gönguleið fyrir alla fjölskylduna og vernda náttúru og tryggja öryggi ferðamanna. Marka þarf bílaplan, setja upp skilti sem fram kemur bæði öryggis og náttúrumarkmið, stika þarf gönguhring upp Vatnsfell og þaðan hringur aftur að bílaplaninu. Loka þarf villuslóðum bæði með grjóti og eins þarf að endurheimta staðargróður.

Verkefnið er á áfangastaðaáætlun Suðurlands og endurspeglar ágætlega nokkrar helstu áherslur sjóðsins, meðal annars hvað varðar náttúruvernd og aukið öryggi ferðamanna.

Mýrdalshreppur - Útsýnispallur í hlíðum Reynisfjalls.

Kr. 17.100.000

- styrkur til búa til nýjar gönguleiðir, aðbúnað og útsýnispall í fjallshlíðinni þar sem fyrir er straumur fólks við óöruggar aðstæður. Þannig verður umferð um svæðið stýrt á skýran hátt. Í bratta niður frá núverandi vegi á fjallinu verða bæði lagðar tröppur sem og rampur niður að útsýnispalli til að skapa aðgengi fyrir alla.

Metnaðarfull uppbygging varanlegra innviða og frágangur á vinsælum ferðamannastað. Verkefnið bætir aðgengi fyrir alla, stuðlar að náttúruvernd og er á áfangastaðaáætlun svæðisins.

Rangárþing eystra - Gluggafoss - stígar austan megin við fossinn.

Kr. 1.243.671

- styrkur til að útbúa varanlega stíga austan megin við Gluggafoss þar sem svæðið er mjög blautt, hentistígar myndast og náttúran liggur undir skemmdum. Mikil slysahætta verður þegar blautt er í veðri og gestir á svæðinu ganga upp með fossinum og fara fram á ótrausta brún en efri hluti fossins rennur um jarðlög úr móbergi sem molna auðveldlega.

Verkefnið snýr að gerð göngustíga og verndun viðkvæmrar náttúru. Það er á áfangastaðaáætlun Suðurlands og rímar vel við meginmarkmið sjóðsins.

Rangárþing eystra – Landeyjasandur – bætt aðgengi og öryggi.

Kr. 4.512.936

- styrkur til að bæta öryggi ferðamanna og íbúa sem leggja leið sína í Landeyjasand stutt frá Landeyjahöfn. Grindur/mottur verða settar upp við bílastæðið þar sem upplýsinga- og öryggisskilti sem verða sett upp. Á upplýsingaskilti verður sýnd vegalengd að skipsflakinu sem er að finna í sandinum 1,22 km frá bílastæðinu og þá vá sem ber að varast á sandinum. Skilti sem bendir á hættur þarf líka að vera við inngang í sandfjöruna frá þjónustumiðstöð í Landeyjahöfn. Háspennustrengir liggja í sandinum og nauðsynlegt er að setja upp viðvörunarskilti um þetta á íslensku og ensku. Leiðin að skipsflakinu verður svo stikuð með kaðli festum á stálstaura.

Verkefnið er prýðilegt innviðaverkefni enda snýr það að bættu öryggi á varasömum slóðum auk annarra mikilvægra þátta. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins.

Rangárþing eystra - Efra-Hvolshellar: Bætt aðkoma, stíga- og skiltagerð.

Kr. 1.655.186

- styrkur til að afmarka svæðið betur sem og setja upp öryggis- og upplýsingaskilti í samvinnu við Kötlu jarðvang. Laga þarf stíginn frá bílastæðinu og að tröppunum niður að hellunum sem og setja nýtt hlið á leiðina sem að þjónustar bæði þeim sem heimsækja svæðið sem og landeigendum sem nýta hluta leiðarinnar sem beitarland. Tröppurnar eru orðnar eyddar og öryggi er ábótavant þar sem að þær verða verulega sleipar og eru mjög brattar. Niðri við hellana þarf að setja upp jarðvangsskilti sem að fer yfir öryggismál inni í hellunum.

Verkefnið lýtur að nokkrum mikilvægum áherslum sjóðsins. Það bætir grunnþjónustu og öryggi, stuðlar að náttúruvernd og er á áfangastaðaáætlun svæðisins.

Rangárþing ytra – Fossabrekkur.

Kr. 55.200.000

- styrkur sem snýr að hönnun og framkvæmd sem byggir á fyrirliggjandi deiliskipulagi sem er á lokametrunum. Helstu markmið deiliskipulagsins eru eftirfarandi: Auka öryggi allra vegfarenda. Bæta aðgengi að náttúru. Vernda náttúru og ásýnd svæðisins. Stuðla að upplifun sem byggist á náttúrufegurð og staðaranda. Fræða vegfarendur um náttúru og sögu svæðisins.

Verkefnið eykur öryggi ferðamanna og styrkir náttúruvernd á viðkvæmu svæði. Einnig bætir það úr skorti á grunnþjónustu, mun auka afköst svæðisins. Sjóðurinn beinir því til umsækjanda að gæta að sjónrænum áhrifum útsýnispalls og hafa hann ekki stærri en nauðsyn krefur. Þar sem um nýja uppbyggingu er að ræða, eru ekki öll uppbyggingin styrkt. Ekki er um fulla styrkupphæð að ræða. Styrkur veittur með fyrirvara um samþykkt deiliskipulag.

Sveitarfélagið Hornafjörður Múlagljúfur - uppbygging fyrsta áfanga náttúrulegrar gönguleiðar og hönnun til framtíðar.

Kr. 3.760.000

- styrkur til að fá fagaðila til að leggja mat á núverandi göngustíg sem liggur upp að Múlagljúfri og koma með tillögur að nánari uppbyggingu. Lögð verður áhersla á lágstemmda uppbyggingu þar sem nýtt verður efni úr nánasta umhverfi.

Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins og endurspeglar helstu áherslur sjóðsins hvað varðar náttúruvernd og aukið öryggi ferðamanna á viðkvæmu svæði. Áhugaverð uppbygging á lítið þekktum ferðamannastað.