Vel heppnuð VestNorden að baki
Hin árlega VestNorden ferðakaupstefna var að þessu sinni haldin í Reykjavík dagana 17.-18.október. Fjöldi nýrra viðskiptatengsla urðu til og gömul kynni styrktust vafalaust á þessari fjölmennu og vel skipulögðu kaupstefnu.
Árlega á Íslandi, Grænlandi eða Færeyjum
VestNorden er sýning, eða kaupstefna sem er árlega haldin til skiptis á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Þar fá ferðasalar og birgjar tækifæri til að funda, kynna sína starfsemi og koma á viðskiptatengslum. Íslandsstofa er framkvæmdaaðili VestNorden á Íslandi en Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA) standa að kaupstefnunni.
Fjölmenni í Laugardalshöll
Að þessu sinni fór VestNorden fram í Laugardalshöll dagana 17.-18.október og var þátttaka einstaklega góð með yfir 600 gesti frá um þrjátíu löndum. Margir gestir nýttu einnig aðdraganda kaupstefnunnar til að kynna sér Ísland og taka þátt í kynningarferðum á vegum söluaðila. Markaðsstofa Suðurlands bauð upp á eina slíka ferð í samvinnu við samstarfsfyrirtæki og þótti ferðin sérstaklega vel heppnuð.
Eins og hraðstefnumót
Á VestNorden eiga birgjar (hótel, afþreyingarfyrirtæki, markaðsstofur og fleiri) sín fundaborð og bóka fundi með ferðasölum (ferðaskrifstofum og öðrum endursöluaðilum) sem hver um sig tekur tæpar tuttugu mínútur. Það má því líkja kaupstefnunni við hraðstefnumót en á milli funda gefst fólki þó tækifæri til að ganga um salinn, spjalla og tengjast betur.
Hundruðir funda um sunnlenska ferðaþjónustu
Markaðsstofa Suðurlands tók hvorki meira né minna en 65 fundi við ferðasala og miðlaði til þeirra upplýsingum um áfangastaði og samstarfsfyrirtæki á Suðurlandi. Að auki tóku hátt á annan tug samstarfsaðila Markaðsstofunnar þátt í VestNorden og kynntu þjónustuframboð sitt á svæðinu. Það má því ætla að sunnlensk ferðaþjónusta hafi verið til umræðu á nokkur hundruð fundum yfir þessa tvo daga.
Mikil eftirspurn: Fjölskyldur og skólahópar áberandi
Margt bar á góma á fundum Markaðsstofunnar. Talsvert var spurt um fjölskylduvæna gistingu og afþreyingu, slow travel, sjálfbærni á svæðinu, þjónustu fyrir skólahópa og FAM ferðir fyrir söluaðila. Þá voru gamalkunnar spurningar um framboð á gistingu fyrir hópa og gistingu á milli Víkur og Hafnar áberandi. Samstarfsfyrirtæki Markaðsstofunar hafa nú fengið sendan tengiliðalista yfir þá aðila sem við funduðum með, ásamt lýsingu á því eftir hverju fólk var að leita.
Ábyrg ferðaþjónusta í fyrirrúmi
VestNorden er orðinn fastur liður í kynningarstarfi Markaðsstofu Suðurlands og hefur það skilað árangri í að efla viðskiptatengsl ferðasala við sunnlensk ferðaþjónustufyrirtæki. Við stuðlum markvisst að ábyrgri ferðamennsku með traustri upplýsingagjöf, vönduðu kynningarefni og öflugu samtali við ferðaþjónustu landshlutans.