Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vertu sæll Bergur, eilífi varðmaður

Bergur, klettastólpi í mannsmynd og tryggur vörður í Breiðabólsstaðarklettum, vakti yfir landsvæði Breiðabólsstaðar í þúsundir ára. Þann 13. nóvember lauk langri vörslu hans þegar hann féll af stalli sínum.
Bergur í tungsljósinu. Ljósmyndari: Kristinn Heiðar Fjölnisson.
Bergur í tungsljósinu. Ljósmyndari: Kristinn Heiðar Fjölnisson.

Þögli varðmaðurinn á Breiðabólsstað

Bergur var klettastólpi í björgum Breiðabólsstaðarkletta, sem stóð vörð yfir bæjunum á Breiðabólsstað: Gerði, Breiðabólsstað og Hala. Í þúsundir ára var hann verndari svæðisins, grannvaxinn og teinréttur. Hann gnæfði á móti himninum, stöðugur viðmiðunarpunktur í síbreytilegum heimi.

Á undanförnum árum hafa gestir í Þórbergssetri á Hala gjóað augunum til Bergs og jafnvel fundið til öryggis við nærveru hans. Þar stóð hann dag eftir dag, horfði yfir bæina, tímalaus og eilífur áhorfandi að lífinu við rætur fjallsins.

En að morgni 13. nóvember féll Bergur af stalli sínum. Nú er hann sennilega allur, - mulinn niður í frumeindir sínar á klettasyllunum neðan við hann. Einhverjir vona þó að líkami hans liggi þarna heill og hægt verði að bjarga honum niður.

Eitt er víst að hann verður ekki lengur augnayndi okkar mannanna sem vöfrum um niðri á jörðinni næstu þúsund eða jafnvel milljón ár. Það varð okkar hlutskipti að horfa á eftir honum inn í eilífðina.

Nú verðum við að kveðja hann og leyfa honum að svífa inn í veröld minninganna og verða hluti af sjálfri eilífðinni.

Þórbergur og talandi steinar

Þórbergur Þórðarson lýsti steinunum fyrir ofan Breiðabólsstaðarbæina í sinni stórmerku bók, Steinarnir tala. Hún er víða talin klassík í íslenskum bókmenntum og gefur steinum, strókum og strintum líf. Þeir sáu þegar Paparnir komu til Íslands og fylgdust með Hrollaugi nema land á svæðinu.

Sumir steinanna gátu þó að lokum losað sig frá fjallinu, hlaupið niður hlíðarnar og orðið frjálsir. „Að hugsa sér að standa í sömu stellingum í þúsund ár, hvílík eilífð er líf steinsins,“ sagði Þórbergur.

Kveðja til Bergs

Nú er Bergur horfinn á vit feðra sinna. Upprétt form hans, sem var svo kunnuglegt, er horfið úr landslaginu. Fall hans minnir okkur á að jafnvel hið staðfasta og eilífa getur breyst.

Í kynslóðir var Bergur þögull vinur, horfandi yfir bæina og á líf þeirra sem bjuggu þar. Brottför hans skilur eftir tómarúm.

Við kveðjum Berg með orðum Þórbergs: „Svona er þá heimurinn laus í sér.“ Jafnvel þeir sterkustu og traustustu meðal okkar eru ekki ósnertanlegir.

Bergur, sem stóð svo lengi, hefur nú gengið inn í hljóm sögunnar, áminning um hið viðkvæma jafnvægi milli varanleika og hverfulleika í heiminum.