Vinnustofa á Hvolsvelli
Þann 13. og 14. nóvember næstkomandi, verður haldin vinnusmiðja á Hvolsvelli þar sem farið verður yfir ýmis grunnatriði er varða stofnun fyrirtækja í ferðaþjónustu
Vinnusmiðjan er liður í nýja verkefninu Startup Tourism og sambærilegar vinnusmiðjur verða haldnar á Egilsstöðum, Akureyri og Ísafirði. Vinnusmiðjan er opin öllum og það er frítt inn. Vinnusmiðjan hefst kl. 13:00 föstudaginn 13. nóvember og verður til kl. 18:00. Við tökum síðan upp þráðinn kl. 9:00 laugardaginn 14. nóvember og vinnum til 17:00.
Startup Tourism er samstarfsverkefni Íslandsbanka, ISAVIA, Bláa Lónsins, Vodafone, Íslenska ferðaklasans og Klak Innovit. Allt að tíu fyrirtæki verða valin til þátttöku í hraðalinn sem hefst 1. febrúar 2016. Í tíu vikur fá forsvarsmenn fyrirtækjanna þjálfun, fræðslu, ráðgjöf og leiðsögn frá hinum ýsmu sérfræðingum, fjárfestum og reyndum frumkvöðlum við að þróa viðskiptahugmyndir sínar áfram.
Markmið Startup Tourism verkefnisins er að efla frumkvöðlastarf innan greinarinnar og ýta undir atvinnu- og verðmætasköpun á Íslandi. Verkefninu er ætlað að stuðla að faglegri undirstöðu hjá nýjum fyrirtækjum í ferðaþjónustu og stuðla að dreifingu ferðamanna í kringum landið, allt árið um kring. Verkefninu er ekki síður ætlað að miðla þeirri þekkingu sem orðið hefur til á undanförnum árum og áratugum og efna til umræðu um helstu áskoranir og tækifæri innan greinarinnar.
Opið er fyrir umsóknir bæði í vinnusmiðjur og viðskiptahraðalinn á vefsíðu verkefnisins, startuptourism.is