Fara í efni

    Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

    Suðurland stendur sterkt- bjartar horfur í ferðaþjónustu innanlands

    Suðurland er í lykilhlutverki þegar kemur að ferðalögum og útivist Íslendinga. Nýjar skýrslur Ferðamálastofu sýna sterka stöðu svæðisins og vaxandi tækifæri til sjálfbærrar þróunar.
    Ferðalangar við Dverghamra. Mynd Þráinn Kolbeinsson.
    Ferðalangar við Dverghamra. Mynd Þráinn Kolbeinsson.

    Tvær nýútkomnar skýrslur Ferðamálastofu um ferðalög, ferðaáform og útivist Íslendinga innanlands varpa ljósi á sterka stöðu Suðurlands sem eitt vinsælasta svæði landsins.

    Íslendingar ferðuðust mikið innanlands árið 2024 og allt bendir til að sú þróun haldi áfram á komandi ári. Á sama tíma skipar útivist stóran sess í daglegu lífi þjóðarinnar. Hvort sem um er að ræða stuttar gönguferðir, fjallgöngur, hjólreiðar eða sérhæfðari útivist, sækja Íslendingar í náttúruna og Suðurland býður upp á fjölbreytta möguleika.

    Náttúrufegurð, gott aðgengi og fjölbreytt afþreying gera svæðið að ómissandi hluta af útivistarmenningu og innanlandsferðalögum Íslendinga.


    Suðurland vinsælasti áfangastaðurinn

    Af þeim sem ferðuðust innanlands árið 2024, heimsóttu 66% Suðurland – sem gerir það að mest sótta landsvæðinu samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar. Þetta er í takt við fyrri ár og staðfestir sterka stöðu svæðisins þegar kemur að ferðalögum Íslendinga. Þar af heimsóttu 25% Suðurland þrisvar sinnum eða oftar.

    Gisting og lengd dvalar

    Íbúar landsins dvöldu að jafnaði 3,6 nætur á Suðurlandi á árinu 2024, og telst það annað hæsta gistináttahlutfall landsins (á eftir Norðurlandi). Alls voru 29% allra gistinátta innanlands á Suðurlandi, sem sýnir bæði vinsældir og mikilvægi svæðisins fyrir ferðaþjónustu innanlands.

    Helstu ástæður ferða og ný tækifæri

    Meirihluti ferðalanga nefndi frí, skemmtiferðir eða tómstundir sem tilefni til ferða innanlands. Þá sögðust 70% þátttakenda vilja upplifa eitthvað nýtt eða heimsækja nýja staði, sem gefur Suðurlandi tækifæri til að kynna ný svæði og þjónustu innan síns landshluta.

    Suðurland í ljósi sjálfbærrar þróunar

    Tæplega 38% þátttakenda sögðust ætla að fækka utanlandsferðum af umhverfisástæðum. Það felur í sér verulegt tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila á Suðurlandi til að mæta aukinni eftirspurn eftir nærferðum, sérstaklega þegar horft er til þess að svæðið býður upp á fjölbreytt náttúrufar, afþreyingu og oft á tíðum stuttan akstur frá höfuðborgarsvæðinu.

    Mikil ánægja og meðmæli

    Í skýrslunni kemur einnig fram að 81% Íslendinga myndu mjög líklega eða frekar líklega mæla með ferðalögum innanlands við aðra. Þá er almennt viðhorf til verðgildis jákvætt, 82% þátttakenda eru sammála eða mjög sammála því að ferðalög innanlands séu peninganna virði.

    Dagleg útivera rótgróin í lífsstíl landsmanna

    Samkvæmt niðurstöðum stunda um 68% landsmanna almenna útivist, svo sem göngutúra eða útivist með börnum, einu sinni í viku eða oftar. Tæpur fimmtungur fer út næstum daglega og tæplega 25% fer út 3–5 sinnum í viku. Þetta sýnir að útivist er hluti af daglegu lífi hjá stórum hluta þjóðarinnar og þarna myndast mikil tækifæri. Suðurland er í kjörstöðu, með fjölbreytta náttúru og margvíslega þjónustu og ljóst að með góðu aðgengi má laða til sín stóran hóp Íslenskra ferðalanga.

    Fjallgöngur, hjól og hlaup – fjölbreyttar þarfir

    Fjallgöngur og lengri gönguferðir njóta vaxandi vinsælda, og um 17% landsmanna stunda slíkar ferðir reglulega, mánaðarlega eða oftar. Þá kemur fram að hjólaferðir, skokk og náttúruhlaup eru iðkuð af 14–18% þjóðarinnar með svipuðum hætti. Þetta kallar á fjölbreytta innviði og aðstöðu sem gerir fólki kleift að stunda hreyfingu af þessu tagi.

    Suðurland býður upp á einstakt umhverfi: Fjöll og fjörur, vötn og jökla, skóga og eldfjöll. Hvort sem fólk vill fara í rólega fjöruferð eða krefjandi fjallgöngu, þá býður svæðið upp á eitthvað fyrir alla.

    Stór tækifæri í sífellt fjölbreyttari útivist

    Könnunin leiddi einnig í ljós að sífellt fleiri prófa sérhæfðari eða nýstárlegri útivist, s.s. köfun, kajaksiglingar, jöklagöngur og jafnvel fallhlífastökk. Þó þessi hópur sé minni, 2–3% þátttakenda, þá sýnir hann að áhugasvið fólks eru fjölbreytt og eftirspurn eftir sérhæfðri afþreyingu fer vaxandi. Suðurland, sem státar af jöklum, gljúfrum, hafinu og einstökum náttúruperlum, er í kjörstöðu til að þróa slíka afþreyingu.

    Þekking fyrir stefnumótun og skipulag

    Þátttakendur stunduðu almenna útivist að meðaltali 142.4 sinnum á árinu 2024 og hefur hún haldist stöðug síðustu ár. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að hafa aðgengi að náttúru og aðstöðu í nærumhverfi fólks. Sveitarfélög og ferðaþjónustuaðilar á Suðurlandi ættu að líta á þessar niðurstöður sem hvatningu til að styrkja og kynna útivistartengd svæði og þjónustu.


     

    Niðurstöður skýrslna Ferðamálastofu sýna að Suðurland stendur sterkt, ekki aðeins sem vinsælasti áfangastaður Íslendinga í ferðalögum innanlands heldur einnig sem lykilsvæði útivistar og náttúrutengdrar afþreyingar. Með fjölbreyttu umhverfi og góðum innviðum hefur Suðurland einstaka möguleika á að mæta bæði ferðalöngum og þeim sem stunda útivist reglulega.

    Sterk staða Suðurlands í ferðamynstri landsmanna, þar sem tveir af hverjum þremur heimsækja svæðið, styður við áframhaldandi uppbyggingu. Á sama tíma sýna gögn að sífellt fleiri Íslendingar sækja í náttúruna á grunni sjálfbærrar þróunar. 

    Þetta gefur Suðurlandi tækifæri til að efla og kynna ný svæði, nýjar leiðir og nýjar raddir innan ferðaþjónustu og útivistar. Svæðið hefur alla burði til að vera leiðandi, ekki aðeins í fjölda gesta heldur líka í gæðum upplifunar, sjálfbærni og þjónustu.

    Nú er rétti tíminn til að hlúa að því sem hefur vakið áhuga landsmanna og byggja ofan á grunninn sem þegar er til staðar.

     

    Hér má skoða skýrslu Ferðamálastofu um Ferðalög Íslendinga 2024 og ferðaáform þeirra 2025

    Hér má skoða skýrslu Ferðamálastofu um Útivist Íslendinga 2024