Fjórða stærsta ferðaþjónustusumarið frá upphafi
Sumarið kom seint í ár, bæði veðurfarslega og í ferðaþjónustunni. Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru töluvert færri í júní en á sama tíma árið áður en þeim fjölgaði þegar leið á sumar. Gestum frá Kanada og Kína fjölgaði umtalsvert og Íslendingar hafa fest sig í sessi sem mikilvægur markhópur fyrir íslenska ferðaþjónustu. Sumarið 2024 var fjórða stærsta ferðaþjónustusumarið frá upphafi.
Hægt af stað en náði sér á strik
Brottfarir um Keflavíkurflugvöll í júní 2024 voru rúmum tuttugu þúsundum færri en árið 2024, sem er um 9% samdráttur á milli ára. Júlí og ágúst voru aftur á móti fjölmennari en árið áður. Suðurland heldur vinsældum sínum, tæp áttatíu prósent ferðamanna heimsóttu landshlutann og hlutfall þeirra sem gistu þar a.m.k. eina nótt hækkaði lítið eitt á milli ára.
Fleiri gestir frá Kanada og Kína
Bandaríkjamenn eru enn fjölmennasti hópur erlendra ferðamanna á Íslandi, þrátt fyrir að þeim hafi fækkað um tæp tólf prósent á milli ára. Einnig fækkar Þjóðverjum, Spánverjum, Bretum, Frökkum og Pólverjum á milli ára. Gestum frá Kanada, Kína, Ítalíu og Hollandi fjölgar hins vegar talsvert. Þessi tíu þjóðerni ná samanlagt yfir sjötíu prósent erlendra ferðamanna á Íslandi.
Herbergjanýting áfram best á Suðurlandi
Herbergjanýting á hótelum dróst saman um allt land ef borið er saman við árið 2023. Mestur var samdrátturinn í júní á Austurlandi þar sem herbergjanýting dróst saman um fjórðung á milli ára. Á Suðurlandi var júní dræmasti mánuður sumarsins með 75% herbergjanýtingu, tæpum tíu prósentum minni en árið áður. Landshlutinn er samt sem áður með besta herbergjanýtingu á landsvísu og fór hún upp í 90% síðsumars.
Þriðjungur gistinátta eru Íslendingar
Gistinætur Íslendinga í skráðri gistingu tvöfölduðust í heimsfaraldrinum. Þótt eitthvað hafi dregið úr þeim eftir að landamæri opnuðust að nýju, nýta Íslendingar gistingu í mun meira mæli en áður. Síðustu þrjú ár hefur hlutdeild Íslendinga í heildar fjölda gistinátta verið rúm þrjátíu prósent, en fyrir heimsfaraldur var hún innan við tuttugu prósent. Þegar eingöngu er litið til hótelgistingar eru tvær af hverjum tíu nóttum Íslendingar. Árshátíðir, jólahlaðborð og starfsmannaferðir eru vafalaust góð innspýting inn í bókunarstöðu hótela yfir vetrarmánuðina.
Fréttin er unnin upp úr samantekt Ferðamálastofu, Ferðaþjónusta í tölum, Sumar 2024.
Sjá nánar á https://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/ferdathjonusta-i-tolum-sumar-2024-samantekt