Heitar laugar á Suðurlandi, hlýtt faðmlag náttúrunnar
Ísland er staðsett á Mið-Atlantshafshryggnum þar sem jarðhitavirkni er mikil. Undir yfirborði landsins eru jarðskorpuflegarnir á stöðugri hreyfingu sem veldur því að kvika kemst í sprungur og hitar upp grunnvatnið. Við það myndast heitar laugar og hverir.
Fátt er nær upprunanum en að skella sér í heita náttúrulaug
Það er gott að hafa nægan aðgang að heitu vatni allan ársins hring á Íslandi, geta farið í langa sturtu og skrúfað upp í ofnunum á köldum dögum. Fátt er þó nær upprunanum en að skella sér í heita náttúrulaug. Á öldum áður var jarðvarmi í sjálfrennandi uppsprettum notaður til baða og þvotta, en einnig til að sjóða mat og baka. Árið 1928 var í fyrsta sinn borað eftir heitu vatni á Íslandi og árið 1943 hóf Hitaveita Reykjavíkur starfsemi sína. Í kjölfarið voru heitar lagnir lagðar í hús landsins og í dag hitar jarðhitavatn um 90% af heimilum Íslendinga.
Heilsuávinningur jarðhitavatns
Jarðhitavatn er talið hafa margvíslegan heilsuávinning. Það er ríkt af steinefnum eins og kísil og brennisteini, sem er talið gott fyrir húðina, slakar á vöðvum, bætir blóðrásina og minnkar streitu. Flestir sem heimsækja íslenskar heitar laugar fara þaðan endurnærðir bæði á sál og líkama. Hér eru taldar upp nokkrar heitar laugar á Suðurlandi:
- Landmannalaugar: Landmannalaugar hafa verið áningastaður fólks um aldir og þar hafa fjallmenn á Landmannaafrétti hafst við í leitum svo lengi sem heimildir eru til um slíkar ferðir. Landslagið er litskrúðugt og fjölbreytt. Eftir góðan dag í fallegri náttúrunni er fullkomið að dýfa sér í heita laug með eldfjallalandslagið allt í kring.
- Reykjadalur: Það er stórkostlegt að ganga Reykjadal sem er fullur af gufuopum og kraumandi leir. Við enda leiðarinnar er hægt að baða sig í læk sem er hitaður upp af jarðhitavatni. Einstök upplifun í fallegu umhverfi.
- Laugarvatn Fontana: Laugarvatn Fontana er glæsileg heilsulind staðsett á miðjum Gullna hringnum. Þar getur þú slakað á í heitum böðum með útsýni yfir Laugarvatn og nærliggjandi fjöll. Jarðhitagufuböðin eru reist yfir náttúrulegum hverum og hægt er að kóróna upplifunina með því að smakka á rúgbrauði sem er bakað í hveragufu.
- Hoffell heitar laugar: Hoffell, landnámsjörð innst í Nesjum og innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Landslagið þar er fjölbreytilegt og fagurt, skriðjöklar, fjallstindar, ár og aurar. Þar eru heitar laugar í náttúrulegu umhverfi með útsýni yfir fjöll og jökla. Hoffell er afskekkt svæði sem hentar vel þeim sem vilja slaka á í rólegu umhverfi.
- Kerlingarfjöll: Stórbrotinn og svipfagur fjallaklasi, suðvestan undir Hofsjökli. Draga þau nafn af drang einum miklum og dökkum, sem Kerling heitir og stendur upp úr ljósri líparítskriðu í vestanverðum fjöllunum. Kerlingarfjöll eru staðsett á jarðhitasvæði sem er þekkt fyrir gufumetta dali og draumkennt landslag. Að lokinni göngu um litskrúðug líparítfjöll og jarðhitaop, er hægt að baða sig í náttúrulegum hverum í þessu einstaka landslagi.