Hinn fullkomni kaffibolli!
Ímyndaðu þér að dreypa á sterkum espresso kaffibolla meðan þú horfir yfir Reynisfjöru, eða gæða sér á volgum kanilsnúð við stórfenglega Vatnajökul.
Á Suðurlandi er fjöldi kaffihúsa og bakaría þar sem hægt er að eiga gæðastundir á ferðalaginu. Góður kaffibolli, ljúffengt bakkelsi og staður til að setjast niður er allt sem þarf þegar fara á yfir ferðaáætlun, hvílast og skipuleggja næsta stopp.
Þessi listi nær frá vestri til austurs og telur upp ýmsa frábæra kaffistaði á Suðurlandi.
Listasafn Árnesinga – Menningarperla í Hveragerði
Listasafn Árnesinga er sannkölluð menningarperla í Hveragerði. Þar eru settar upp metnaðarfullar sýningar, innlendra og erlendra listamanna, og hefur safnið verið í samstarfi við önnur söfn um árabil. Sýningarstefnan er margbreytileg en oft með skírskotun í Suðurlandið.
Umhverfi safnsins er spennandi og margt sem vert er að skoða í Hveragerði. Verkin sem eru sýnd hverju sinni koma jafnt úr smiðjum rótgróinna listamanna og nýliða í greininni og það er ævintýri líkast að ganga um húsið. Listaunnendur og þeir sem eru einfaldlega forvitnir, geta notið sín á þessum einstaka stað þar sem hver krókur og kimi er nýttur á skapandi hátt. Ekki spillir fyrir að það er frítt inn á safnið og þannig geta allir notið listarinnar, sama hver fjárhagurinn er.
Eftir að hafa skoðað sýningarnar geta gestir sest niður á kaffihús safnsins, íhugað listaverkin og notið stundar í afslöppuðu umhverfi. Á safninu er einnig safnbúð þar sem ýmsir fallegir gripir og listaverk eru til sölu.
Café Reykjadalur – Kaffihús við slóða vinsællar gönguleiðar
Café Reykjadalur í Hveragerði er frábær viðkomustaður fyrir alla sem vilja njóta kaffibollans í hlýlegu umhverfi við fallegan dal. Það er staðsett við upphaf einnar vinsælustu gönguleiðar landshlutans, í Reykjadal, og gott að hefja gönguna eða enda hana á hressingu í skálanum.
Kaffihúsið býður upp á gæðakaffi og heimagert bakkelsi, meðal annars hefðbundna kanilsnúða og kökur. Hönnun hússins er einstaklega falleg og eru viðarklæðningar allsráðandi sem gefur staðnum hlýlegan blæ. Það er yndislegt að ganga inn dalinn og skoða jarðhitasvæðið með viðkomu í heitu náttúrulauginni á leiðinni.
Reykjadalur er þekktur fyrir fegurð sína, náttúrulaug, einstakt göngusvæði, sjóðandi leirhveri, gufustróka og víðáttumikið útsýni yfir fjöllin. Þetta er ein vinsælasta gönguleið Suðurlands.
Greenhouse Café – Mathöll og kaffihús í grænu umhverfi
Greenhouse Café er staðsett í Gróðurhúsinu í Hveragerði. Þar er hótel, mathöll, ísbúð og verslanir, allt undir sama þaki. Gróðurhúsið leggur áherslu á sjálfbærni og að skapa grænt umhverfi í allri starfsemi sinni. Leitast er við að versla allt inn úr nærumhverfinu, vinna með íslenskum framleiðendum, lágmarka flutninga, endurnýta gömul og falleg húsgögn og velja umhverfisvænustu lausnirnar.
Í Gróðurhúsinu eru þægileg setusvæði sem eru tilvalin til slökunar meðan gestir gæða sér á veitingum. Stórir gluggar hleypa náttúrulegu ljósi inn og skapa bjart og hlýlegt andrúmsloft.
Það er kærkomið að stoppa í þessu fallega húsi þegar ferðast er um Hveragerði, hvort sem ferðalaginu skal haldið áfram um Suðurlandið eða stoppa skal í bænum. Gróðurhúsið er hinn fullkomni staður til að staldra við, fá sér kaffi og njóta stundarinnar áður en haldið er í næsta ævintýri.
Bókakaffið á Selfossi – Þar sem kaffið ilmar og bækurnar tala
Bókakaffið á Selfossi er fullkominn staður fyrir þá sem elska kaffi, kökur og góðar bækur. Þetta notalega kaffihús er einnig antikbókabúð, þar sem hver hilla geymir falda gimsteina – allt frá sígildum bókmenntum til sjaldgæfra útgáfa.
Kaffið er bragðmikið og vel lagað, hvort sem þú kýst sterkt espresso eða silkimjúkan latte. Heimagerðu kökurnar og bakkelsið breytast dag frá degi, blanda af hefðbundnu íslensku góðgæti og sígildum uppskriftum.
Veggir bókakaffihússins eru klæddir bókahillum þar sem auðvelt er að gleyma sér og virkja andann. Þar er gott að fara einsamall eða með öðrum, skoða bækur, drekka kaffi, hlæja og eiga í hrókasamræðum. Hugurinn fyllist af eldmóði á þessum skapandi stað.
GK Bakarí - Bestu vinir, besta bakkelsið
Vinirnir Guðmundur Helgi Harðarson og Kjartan Ásbjörnsson stofnuðu GK bakarí á Selfossi í janúar 2020. Bakaríið býður upp á úrval af brauði og sætabrauði en lykiláherslan er fjölbreytt úrval af framúrskarandi snúðum.
Húsakynnin eru einstaklega notaleg með útsýni út á aðalgötuna sem liggur í gegnum Selfoss. Það er gott að sitja inni í rólegu umhverfinu og horfa á bílana bruna framhjá.
Í bakaríinu er Sjöstrand kaffivél sem lagar lífrænt, fair-trade kaffi í niðurbrjótanlegum hylkjum. Þannig er hægt að gæða sér á úrvals kaffibolla án samviskubits. Snúðarnir eru með ýmsu bragði, klassískir kanilsnúðar, berja eða jafnvel exótískir og það er fátt betra en að gæða sér á rjúkandi heitum kaffibolla og snúð.
GK bakarí býður einnig upp á vegan valkosti þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Kaffi Krús: Góðgæti í gömlu og sjarmerandi húsi
Ef þig langar í góðan kaffibolla og kökusneið í einstaklega notalegu húsi, þá er Kaffi Krús á Selfossi rétti staðurinn. Kaffihúsið er staðsett í hjarta Selfoss, við hlið gamla kaupfélagsins, og hefur blómstrað þar síðan árið 1992.
Þar er fjölbreytt úrval af mat, hvort sem fólk vill fá sér pizzur, kjöt-, fisk-, pastarétti eða eitthvað sætt með kaffinu. Staðurinn er rótgróinn og matseðillinn þróaður með þarfir viðskiptavina í huga. Þar er kjörið að gleyma sér í samræðum því hljóðvistin í húsinu er frábær og viðarklæðningar og dökkir litir halda vel utan um gesti. Kaffidrykkirnir eru lagaðir í góðum kaffivélum og kökurnar eru í miklu úrvali þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Kaffi Krús er hinn fullkomni staður fyrir þau sem vilja njóta veitinga í afslöppuðu umhverfi. Þegar veðrið er gott er hægt að sitja á fallegu útisvæði og gæða sér á góðgætinu utandyra.
Konungskaffi - Morgunmatur eða kaffiveisla í nýjum miðbæ
Konungskaffi er einstaklega glæsilegt fjölskyldurekið kaffihús í glænýjum miðbæ Selfoss. Þar er auðvelt að láta sér líða eins og konungi eða drottningu í höfðinglegum húsakynnum, þægilegum sætum með útsýni yfir fallegt torg miðbæjarins.
Í góðu veðri er kjörið að setjast út og njóta umhverfisins. Á sumrin er ýmislegt um að vera á torginu, leikþættir, tónleikar, útsendingar á stórum skjá og samvera. Þar eru veitingastaðir, tónleikahús og verslanir allt í kring sem gerir staðsetninguna kjörna til að skynja iðandi lífið í bænum.
Á Konungskaffi er hægt að fá sér morgunmat frá klukkan 10 og svo það sem hugurinn girnist fram eftir degi. Úrvalið er ekki af lakari endanum, svo sem heimagerðar kökur og brauðmeti ásamt skyr ostakökunni vinsælu sem á enga sína líka.
Konungskaffi er staður fyrir þau sem vilja njóta mannlífsins á Selfossi.
Almar Bakarí – Nostur og alúð í hverjum bita
Almar Bakari er rótgróið bakarí staðsett í Hveragerði, á Selfossi og Hellu. Heimafólk þekkir kræsingarnarnar vel þar sem fyrsta bakaríið var opnað fyrir 16 árum í Hveragerði. Síðan hafa brauðin og kökurnar fest sig í sessi og fátt er betra en að setjast inn hjá Almari og fá sér kaffi og með því.
Brauðgerð Almars byggir á hægri gerjun, þar sem undirbúningur tekur allt að 18 klukkustundir. Enginn viðbættur sykur er í brauðunum og salt og ger í lágmarki. Með þessari aðferð verða brauðin einstaklega bragðgóð og holl.
Það þurfa allir að prófa Karlrembubrauðið og Skvísubrauðið sem eru einstaklega ljúffeng og sívinsæl. Sumir geta ekki byrjað daginn án þeirra. Hjá Almari má einnig gæða sér á súpu og brauði sem á alltaf vel við.
Hvort sem þig langar í snarl eða notalega kaffipásu, þá er Almar bakari rétti staðurinn.
Babylon Bistro – Gæðakaffi í sögufrægu húsi
Á Laugarvatni er veitinga- og kaffihúsið Babylon Bistro í sögufrægu húsi gamla Héraðsskólans. Þar er tilvalið að fá sér gott kaffi og heimagerðar kökur ásamt ýmsum réttum á matseðli eftir heimsókn í Laugarvatn Fontana.
Héraðsskólinn er ekki bara fallegt hús, það er hluti af sögu Íslands. Byggingin var reist árið 1928 og hönnuð af Guðjóni Samúelssyni, sem margir telja einn færasta arkitekt Íslands. Framkvæmd byggingarinnar var í höndum Jónasar frá Hriflu, stjórnmálamanns sem var sannfærður um mikilvægi menntunar, listar og menningar.
Ingunn og Böðvar, sem áttu landið þar sem Héraðsskólinn var reistur, börðust lengi fyrir því að skólinn yrði byggður á Laugarvatni, sem á þeim tíma var aðeins lítið landsvæði við vatnið. Þau trúðu því að þetta væri hinn fullkomni staður fyrir menntastofnun og gáfu land sitt til íslenska ríkisins til að bygging skólans yrði að veruleika. Án þeirra hefði hvorki skólinn né fallegi bærinn sem myndaðist í kringum hann orðið til.
Geysir Center – Fullkomin áning við stórbrotna náttúru
Við Geysi í Haukadal býður Geysir Center upp á fjölbreytta þjónustu fyrir ferðalanga: Kaffihús, ísbúð, veitingastað og verslun. Þar er gott að hvíla sig og næra.
Geysir er einn þekktasti hver heims og aðrir goshverir um víða veröld draga nafn sitt af honum. Geysir gaus reglulega á árum áður en er orðinn óvirkur í dag. Strokkur, sem er í nokkra metra fjarlægð frá Geysi, gýs á nokkra mínútna fresti og vatnsstrókurinn nær allt að 30 metra hæð.
Hverasvæðið er einstakt náttúruundur, þar sem sjóðandi leirkatlar, gufuhverir og heitavatnslindir skapa stórbrotið landslag. Það er hluti af Gullna hringnum og laðar að sér ferðamenn frá öllum heimshornum sem vilja upplifa kraft jarðhitans í návígi.
Það er best að taka því rólega þegar Geysissvæðið er skoðað og stoppa í veitingasölunni til að næra sig og fara yfir málin. Umhverfið innandyra er stílhreint og kaffið sjóðheitt.
Það er einstakt að geta heimsótt slík náttúruundur í heimahögum, við Íslendingar erum sannarlega ríkir.
Kaffi Gullfoss – hlýtt skjól við hrífandi foss
Við upphaf göngustígsins sem liggur að hinum magnaða Gullfossi er Kaffi Gullfoss.
Þar er hægt að hlýja sér og fá sér kaffisopa fyrir eða eftir rölt að fossinum.
Hvort sem ferðalangar heimsækja þennan fallega foss á björtum sumardegi eða köldum vetri, býður þjónustuhúsið upp á notalegt athvarf til að setjast niður og hlaða batteríin.
Gullfoss er einn frægasti foss Íslands og hluti af Gullna hringnum. Hann er í raun tveir fossar; efri fossinn er 11 metrar og neðri 20 metrar, og saman steypast þeir í djúpt gljúfur í Hvítá.
Stutt gönguleið er frá kaffihúsinu að fossinum og stórkostlegt að líta hann augum.
Hvönn Restaurant – Þar sem sagan lifnar við
Skálholtsdómkirkja er einn merkasti sögustaður Íslands.
Í yfir 700 ár var Skálholt miðstöð trúar og menntunar á Íslandi, þar sem fyrsti biskupsstóll landsins var stofnaður árið 1056. Núverandi Skálholtsdómkirkja var reist árið 1963 og er þekkt fyrir fallegar steindar gluggarúður, stórbrotna altaristöflu og mikinn hljómburð.
Það er einstakt að ganga um sögufrægt svæðið og að því loknu er notalegt að setjast niður á Hvönn veitingastað og njóta ilmandi kaffibolla og heimabakaðra kræsinga. Hvönn er fullkominn viðkomustaður fyrir alla sem eru á ferð um Gullna hringinn eða vilja njóta kyrrðar og náttúrufegurðar í þessu sögulega umhverfi.
Vínstofa Friðheima – Lúxus í hjarta gróðurhúss
Vínstofa Friðheima er vín- og vinnustofa staðsett í einu elsta gróðurhúsinu í landi Friðheima. Þar er hægt að koma og fá sér kaffibolla, gæða vínglas eða létta máltíð, hitta vini, lesa í bók eða vinna.
Vínstofan býður upp á einstaka blöndu af notalegri stemningu, frábæru kaffi, dásamlegum kökum og úrvals vínum. Hún er staðsett inni í gróðurhúsi þar sem tómatar vaxa allt árið um kring og þar er heillandi heimur. Fyrir vínáhugafólk er einnig í boði vel valið úrval vína sem fara fullkomlega með bragðinu af matnum og skapa sérstaka upplifun fyrir þá sem njóta þess að para góð vín með veitingum.
Hvort sem þú ert í leit að ljúfri stund með kaffi og köku eða vilt njóta þess að dreypa góðu víni í gróðurhúsinu, þá býður Vínstofan upp á hlýlegt andrúmsloft og er staður sem þú ættir ekki að láta framhjá þér fara á Suðurlandi.
Mynd siggadottir.com
Græna Kannan – Gott kaffi og sjálfbær lífsstíll
Græna Kannan er lífrænt kaffihús staðsett Í hjarta Sólheima í Grímsnesi. Þar er boðið upp á nýbrennt og malað lífrænt Sólheimakaffi ásamt margrómaðri tómatsúpu. Á boðstólnum er einnig heimabakað brauð, kökur og annað góðgæti.
Sólheimar í Grímsnesi eru einstakt samfélag sem byggir á sjálfbærni, samfélagslegri ábyrgð og samvinnu. Það var sett á laggirnar árið 1930 af Sesselju Sigmundsdóttur sem vildi byggja upp samfélag með áherslu á sjálfbæran lífsstíl og jöfnuð fyrir alla, óháð fötlun eða bakgrunni. Í dag er starfið í Sólheimum fyrirmynd fyrir aðra hvað varðar umhverfisvæna lifnaðarhætti og félagslega nýsköpun.
Ef þú ert á ferðinni um Suðurland verðurðu ekki svikinn af því að stoppa í Sóheimum. Þar er hægt að fá sér göngutúr, skoða Völu listmunahús (þar sem er sýning og verslun) og fá sér bita á Grænu Könninni. Það er um að gera að kíkja í heimsókn, fá sér bolla af lífrænu kaffi og njóta kyrrðarinnar sem einkennir þetta einstaka samfélag.
Eldstó Art Café - Listin að njóta kaffibolla
Á Hvolsvelli er kaffihúsið og leirlistagalleríið Eldstó Art Café. Þar svífur kaffiangan og matarilmur í lofti og listaverk skreyta umhverfið. Staðurinn er fjölskyldurekinn og ástríðan leynir sér ekki.
Hver kaffi- og tesopi er drukkinn úr handgerðum bolla sem er búinn til af leirstafólkinu sem rekur staðinn og það gerir upplifunina einstaka. Hægt er að kaupa sér leirmuni í versluninni á staðnum.
Á Eldstó er boðið upp á nýlagað kaffi, allt frá kröftugu espresso til rjómamjúkra cappuccino drykkja. Með kaffinu er hægt að fá sér heimabakaðar kökur og ýmsa rétti eftir skemmtileg ævintýri á Suðurlandi.
Aska Café - Gríptu þér kaffi í LAVA Centre
Aska Café er staðsett inni í LAVA Centre á Hvolsvelli og er hannað fyrir ferðalanga sem vilja grípa sér kaffið sjáfir.
Kaffihúsið er rekið sem honesty café, þar sem gestir geta afgreitt sig sjálfir, sem gerir það að þægilegum viðkomustað fyrir þá sem eru á ferð um Suðurland.
Á Aska Café er boðið upp á úrval af heitum og köldum drykkjum, þar á meðal Costa kaffi, auk léttra veitinga. Þó matseðillinn sé einfaldur, hentar kaffihúsið vel fyrir þá sem vilja hressingu fyrir eða eftir heimsókn í safnið.
LAVA Centre er ómissandi viðkomustaður fyrir alla sem hafa áhuga á kraftmikilli jarðfræði Íslands. Þessi gagnvirka sýning leiðir gesti í gegnum vísindin á bak við eldgos, jarðskjálfta og myndun landslagsins. Með hátæknibúnaði og rauntímamælingum á jarðhræringum veitir miðstöðin fræðandi og lifandi sýn á hina miklu náttúruöfl Íslands.
Það er magnað að finna flekahreyfingar undir fótum sér og öðlast í leiðinni þekkingu á þeim fjölmörgu eldgosum sem hafa mótað land okkar og þjóð.
Vigtin Bakhús - Notalegt kaffihús við höfnina
Við höfnina í Vestmannaeyjum, í hlýlegum, gömlum húsakynnum, er kaffihúsið Vigtin Bakhús. Þar má finna úrval af ljúffengu sætabrauði, samlokum og góðu kaffi sem hægt er að gæða sér á meðan horft er á bátana sigla inn og út úr höfninni.
Náttúrufegurðin er einstök í Vestmannaeyjum og þangað siglir ferjan Herjólfur allt árið um kring. Siglingin tekur um 45 mínútur frá Landeyjahöfn og að sjá eyjarnar nálgast á góðviðrisdegi er engu líkt. Í Vestmannaeyjum er stórbrotið landslag, mikil saga og fjölbreytt dýralíf. Eyjarnar eru heimili stærstu lundabyggðar í heimi og sannkölluð paradís fyrir náttúruunnendur.
Fyrir ferðalanga er tilvalið að koma við á Vigtinni, hvort sem deginum er startað með kaffi og nýbökuðu sætabrauði, gert er hlé á göngu með viðkomu á staðnum eða tilgangurinn er einvörðungu sá að setjast niður við sjávarsíðuna og njóta.
Faxi Bakery - Útsýni yfir Eyjafjallajökul við þjóðveg 1
Faxi Bakery er vel staðsett bakarí við þjóðveg 1 þar sem gott er að stoppa, teygja úr sér og fá sér kaffibolla áður en ferðinni er haldið áfram.
Útsýnið frá staðnum er stórkostlegt, þar blasir Eyjafjallajökull við í allri sinni dýrð. Eldstöðin undir jöklinum á sér merkilega sögu en gos úr henni skók heiminn árið 2010. Það er um að gera að rifja upp eldfjallasöguna meðan setið er að snæðingi og skoða hvað hægt er að gera á Eldfjallaleiðinni.
Úrvalið í bakaríinu er girnilegt, kökur, snúðar og brauð með allskyns áleggi er á boðstólnum daglega ásamt fjölbreyttu úrvali af kaffidrykkjum. Mikill metnaður er settur í bakstur og útfærslur á veitingum. Sérstaklega má nefna hjónabandssæluna á staðnum en uppskriftin hefur gengið kynslóða á milli og má finna ást í hverjum bita.
Freya Café - Bleik blóm og bollakökur á Skógasafni
Á Skógasafni er Freya Café, eitt krúttlegasta kaffihús á Suðurlandi. Þar er mikið lagt upp úr gamaldags kitsch stíl með bleikum blómum og gylltum skreytingum í bland við bollakökur og makkarónur.
Þegar farið er í menningarferð um Suðurland er ómissandi að heimsækja Skógasafn. Safnið er eitt fjölsóttasta safn Íslands. Það varðveitir og sýnir menningararf Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga með yfir 18.000 safngripum allt frá landnámsöld til samtímans.
Skógafoss er rétt við safnið en hann þykir einn glæsilegasti foss landsins. Hann er 60 metra hár og um 25 metra breiður, með kraftmiklum vatnsvegg sem getur skapað stórbrotna regnboga í sólarljósi. Stigi við hlið fossins býður upp á tækifæri til að ganga upp á fossbrúnina með einstöku útsýni yfir Suðurland. Þar hefst einnig hin vinsæla Fimmvörðuhálsleið, ein fegursta gönguleið Íslands, sem liggur alla leið í Þórsmörk.
Black Beach Restaurant - Kaffi með útsýni yfir Reynisfjöru
Black Beach Restaurant er kaffi- og veitingahús staðsett við hina mögnuðu Reynisfjöru. Frá staðnum er stórbrotið útsýni að Dyrhólaey og yfir úfið Atlantshafið. Byggingin var reist árið 2014 með það í huga að hún félli vel inn í landslagið og hluti af gólfum og veggjum staðarins er úr slípuðum steinum fjörunnar.
Reynisfjara er ein þekktasta náttúruperla Íslands, staðsett rétt utan við Vík í Mýrdal. Hún er þekkt fyrir tilkomumikið stuðlaberg, Reynisdranga sem rísa úr hafi og kraftmikið brim sem skellur á ströndinni. Reynisfjara er jafn falleg og hún getur verið varasöm og gestir eru hvattir til að virða öryggisreglur. Þarna sýnir náttúran sig í sinni villtustu og áhrifaríkustu mynd.
Rjúkandi kaffibolli og kökusneið getur ekki klikkað meðan dáðst er að stórbrotnu útsýninu. Það borgar sig að taka sér tíma á staðnum því þar er margt er að sjá og jarðsagan er merkileg. Á matseðli Black Beach Restaurant má finna heita súpu með brauði, gómsætar samlokur og girnilegar kökur sem eru bakaðar á staðnum.
Skool Beans Café - Alúð í hverjum sopa í amerískum skólabíl
Í Vík í Mýrdal leynist óviðjafnanlegt kaffihús rétt við tjaldsvæðið. Það heitir Skool Beans Café og er staðsett í gömlum, amerískum skólabíl. Þar er hægt að fá sér kaffi, ristað á staðnum, í ýmsum útfærslum. Fyrir þau sem ekki drekka kaffi er boðið upp á handgert te. Það má með sanni segja að alúðin finnist í bragðinu á þessum ótrúlega stað.
Eigandinn, Andrea, flutti til Íslands frá Englandi og lét drauminn um að opna óhefðbundið kaffihús rætast. Ýmsar veitingar eru á boðstólnum, bakaðar daglega. Úrvalið er síbreytilegt, croissant, súkkulaðikökur og ljúffengir vegan réttir.
Það er sannkölluð upplifun að heimsækja Skool Beans og ekki spillir fyrir að það er staðsett í fallegu Vík rétt við Víkurkirkju. Þarna er tilvalið að fara til að njóta góðra veitinga og sækja innblástur í leiðinni.
Lava Café - Ljúft kaffistopp í miðbæ Víkur
Á Lava Café í Vík í Mýrdal er gott að staldra við og fá sér góðan kaffisopa ásamt girnilegu bakkelsi. Kaffihúsið er í hjarta bæjarins og þar er hlýlegt andrúmsloft.
Staðurinn er fjölsóttur á sumrin, eins og á flestir aðrir þjónustustaðir á Suðurlandi, og því er gott að ferðast yfir haust-, vetrar- og vormánuði. Að ferðast á þeim tíma getur oft verið stórkostlegt þegar landið er í haustlitum, vetrarskrúðanum eða mildum vorbúning.
Á Víkursvæðinu er ótal margt áhugavert að skoða: Kötlusetur og sjóminjasafnið Hafnleysu, Reynisdranga, Dyrhólaey og Víkurkirkju svo eitthvað sé nefnt. Best er að taka því rólega og gefa sér tíma á svæðinu svo hægt sé að njóta og búa til dýrmætar minningar.
Hamrafoss Café - Þar sem fossinn stelur senunni
Hamrafoss Café er fjölskyldurekið kaffihús staðsett við hringveginn nærri hinum undurfagra Fossi á Síðu. Gamaldags stíll í bland við djúpa tengingu við náttúruna einkenna þennan friðsæla stað.
Foss á Síðu er tignarlegur foss sem fellur niður bratta klettaveggi rétt ofan við bæinn Síðu í Skaftárhreppi. Þegar vatnið rennur niður hamrabeltið myndast glitrandi vatnsslæða. Lýsing í bjarginu gerir fossinn einstaklega fallegan að kvöldlagi þegar dimmt er. Þá lýsist fossinn upp og myndar áhrifaríkt sjónarspil.
Hamrafoss Café er fullkominn staður til að staldra við, njóta útsýnisins og hlaða batteríin. Á efri hæð hússins er setustofa með útsýni yfir fossinn og umhverfið. Sveitin allt í kring er rík af þjóðsögum, gömlum bæjarstæðum og heillandi landslagi.
Hvað er betra en að fá sér rjúkandi kaffibolla og léttar veitingar í sveitasælunni.
Skaftafellsstofa - Í hjarta þjóðgarðs
Skaftafellsstofa er opin allan ársins hring og veitir gestum fræðslu og upplýsingar um svæðið við Vatnajökul. Þar er hægt að eyða mörgum dögum og þó er alltaf eitthvað nýtt að sjá.
Vatnajökull er stærsti jökull Íslands og sá næststærsti í Evrópu. Hann þekur um 8% af flatarmáli landsins og nær yfir mörg eldfjöll, dali og ótrúlega fjölbreytt landslag.
Á svæðinu í kringum Vatnajökul er margt að upplifa – hvort sem fara á í gönguferð að jökultungum eins og Skaftafellsjökli, skoða Jökulsárlón og íshella á veturna, eða einfaldlega dást að víðáttunni úr fjarska.
Á gestastofunni er aðstaða til að hvíla sig og næra. Þar er hægt að fá sér kaffibolla, súpu og léttar veitingar sem er kjörið fyrir göngufólk og aðra ferðalanga. Staðsetningin við hjarta þjóðgarðsins gerir Skaftafellsstofu að vinsælum viðkomustað.
Café Vatnajökull – Rjúkandi bolli við jökulrætur
Café Vatnajökull í Fagurhólsmýri er umlukið einum tilkomumestu náttúruperlum Íslands.
Staðsett við rætur Vatnajökuls býður kaffihúsið upp á fjölbreyttar veitingar og hjónabandssælan með rabarbarasultunni er allra vinsælust. Á kaffihúsinu eru til sölu handprjónaðar lopapeysur og listmunir frá listafólki úr nærsamfélaginu, sem gefur staðnum hlýlegt og persónulegt yfirbragð.
Úr stórum gluggum kaffihússins blasir Vatnajökull við í allri sinni dýrð og í fjarska rís Öræfajökull, hæsti tindur Íslands. Samspil jökuls, fjalla og víðáttu gerir þetta svæði ótrúlegt á að líta.
Það er auðvelt að slaka á og njóta augnabliksins í þessari náttúruparadís með heitan drykk í hönd. Best er að leyfa sér að vera bara hér og nú, anda að sér hreina loftinu og tæma hugann.
Glacier Lagoon Café: Coffee with a View of Jökulsárlón
Right on the edge of Jökulsárlón Glacier Lagoon, Glacier Lagoon Café is a great place to take a break and enjoy the surroundings. The café serves sandwiches, cakes, and pastries, along with hot coffee, tea, and hot chocolate. For something more filling, the seafood soup is a popular choice.
The view is what makes this café special. Large windows let you watch icebergs drift across the lagoon, with Vatnajökull glacier towering in the distance. On a clear day, the outdoor seating is the perfect spot to sit with a coffee and take it all in—the stillness, the ice, and the ever-changing colors of the water.
The café is open year-round, adjusting its hours with the seasons. Whether you're waiting for a boat tour, taking a break from the road, or just looking for a quiet moment, this spot offers coffee, food, and one of the best views in Iceland.
Final Sip: Coffee, Comfort, and Icelandic Charm
South Iceland is full of spots to grab a good coffee, whether you’re looking for a quick stop or a cozy café to linger in. So next time you’re chasing waterfalls, glaciers, and lava fields, don’t forget to chase the perfect cup of coffee along the way.