Fara í efni

    Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

    Hver er framtíðarsýn Suðurlands sem ferðaþjónustusvæði?

    Hvar viljum við vera eftir þrjú ár? Hvaða hlutverk viljum við að ferðaþjónustan spili á áfangastað?

    Frá því á vormánuðum hefur verið unnið að gerð áfangastaðaáætlunar DMP fyrir Suðurland og hefur sú vinna farið vel af stað. Skipað var í vinnuhópa í sumar og fyrstu tveimur vinnufundum svæða á Suðurlandi lokið. Valið var inn í vinnuhópana út frá hagaðilagreiningu, sem búið var að vinna í undirbúningsfasa verkefnisins, þar sem markmiðið var að fá raddir stærstu hagaðila að borðinu. Einnig var íbúum og hagaðilum á hverju svæði fyrir sig gefinn kostur á að bjóða sig fram í vinnuna þegar auglýst var eftir fulltrúum svæða í héraðsblöðunum í byrjun sumars.

    Svæðaskipting á Suðurlandi er í samræmi við skiptingu sem kom fram í Markaðsgreiningu Suðurlands:

    Vestursvæði: Ölfus, Hveragerðisbær, Sveitafélagið Árborg, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógarbyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Ásahreppur og Rangárþing ytra.

    Miðsvæði: Rangárþing eystra, Vestmannaeyjabær, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur.

    Austursvæði: SveitarfélagiðHornafjörður.

    Hvað er áfangastaðaáætlun DMP?

    Áfangastaðaáætlun DMP (Destination Management Plan) er heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samþættingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þar með talið:

    ✓ þarfir gesta og heimamanna

    ✓ þarfir fyrirtækja og umhverfis

    Af hverju DMP? Með gerð áfangastaðaáætlunar DMP fyrir Suðurland verður til heildræn stefna sem lýtur að ferðaþjónustunni sem atvinnugrein, sveitarfélögum, íbúum, umhverfi og samfélaginu í heild sinni. 

    Fyrstu vinnufundir voru haldnir á Höfn, í Vestmannaeyjum og í Bláskógabyggð í september og var yfirskrift fundanna Hver er staðan? Þar var dregið fram hvað fólk er ánægt með á svæðinu annarsvegar og hvað  má bæta á svæðinu hins vegar. Á fundunum lágu fyrir eftirtaldir umræðurammar sem þátttakendur tóku afstöðu til; opinberir aðilar, innviðir, samfélagið, náttúran, ímynd og gæði og svo samtal og samvinna.

    Í október voru vinnufundir haldnir í Suðursveit, Vík og Þorlákshöfn þar sem unnið var með framtíðarsýn svæðanna útfrá sömu umræðurömmum.

    Næstu vinnufundir verða haldnir í lok nóvember þar sem farið verður í meginmarkmið, starfsmarkmið og grunninn að aðgerðaráætlun fyrir hvert svæði fyrir sig.

    Lagt verður upp með að halda opna íbúafundi eftir áramót þar sem staðan á vinnunni verður kynnt og íbúum og öðrum hagaðilum gefið tækifæri á að koma með sitt innlegg eða athugasemdir.

    Nánari upplýsingar um verkefnið á Suðurlandi sem og á landsvísu má finna á þessum vefföngum: www.south.is/is/dmp og www.ferdamalastofa.is/dmp

    Verkefnastjórar áfangastaðaáætlana DMP á Suðurlandi eru Anna Valgerður Sigurðardóttir, ferðamálafræðingur (anna@south.is) og Laufey Guðmundsdóttir, verkefnastjóri MPM (laufey@south.is). Starfsstöð þeirra er hjá Markaðsstofu Suðurlands á Selfossi, sem hýsir verkefnið sem er í eigu Ferðamálastofu. Mikil og þétt samvinna er með öllum svæðum og eru tengiliðir á hverju svæði; Suðvestur svæði Ásborg Arnþórsdóttir, Miðsvæði Árný Lára Karvelsdóttir og Suðaustur svæði Árdís Erna Halldórsdóttir.

    F.h. áfangastaðaáætlana DMP á Suðurlandi,
    Anna Valgerður Sigurðardóttir og Laufey Guðmundsdóttir