Jólafundur Markaðsstofa landshlutanna og Ferðamálastofu
Föstudaginn 13. desember bauð Ferðamálastofa forstöðumönnum Markaðsstofa landshlutanna (MAS) til árlegs jólafundar. Á þessum fundum eru ýmis samstarfsverkefni kynnt og rædd. Í ár voru Elías Bj. Gíslason forstöðumaður þróunar og þjónustu, Helena Þ. Karlsdóttir forstöðumaður stjórnsýslusviðs, Heiðrún Erika Guðmundsdóttir forstöðumaður rannsókna og þekkingar og Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri á fundinum fyrir hönd Ferðamálastofu. Helena fór yfir leyfi og tryggingar ferðaskrifstofa, dagsferðaleyfi eftir landshlutum og málefni framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Heiðrún kynnti mælaborð ferðaþjónustunnar sem er nýlega búið að setja í loftið í breyttri og bættri mynd auk þess sem að fram fóru góðar umræður um rannsóknir og gögn sem nýtast MAS. Þá hafa MAS og Ferðamálastofa unnið að gerð áframhaldandi samninga um rekstur áfangastaðastofa í öllum landshlutum. Sú vinna hefur nú verið kláruð og skrifað undir við hverja og eina Markaðsstofu á næstu dögum til næstu þriggja ára.
Markaðsstofur landshlutanna og Ferðamálastofa eiga í miklu og góðu samstarfi um fjölmörg verkefni sem tengjast þróun ferðaþjónustu og áfangastaðanna um allt land. Einnig tryggir þessi samningur áframhaldandi samstarf við Íslandsstofu. Við hjá Markaðsstofu Suðurlands erum mjög ánægð með þróun þessa samstarfs í gegnum árin og gríðarlega mikilvægt að finna að mikill vilji er fyrir því að hálfu Ferðamálastofu að ýmis verkefni eigi að vera unnin í heimabyggð. Markaðsstofa Suðurlands er samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja í ferðaþjónustu á Suðurlandi sem tryggir aðkomu allra þessara aðila að samtali um þróun greinarinnar hér í landshlutanum.