Mannamót Markaðsstofa landshlutanna snúa aftur!
Ferðakaupstefnan Mannamót Markaðsstofa landshlutanna verður haldin að nýju, fimmtudaginn 24. mars í Kórnum í Kópavogi á milli 12 og 17. Viðburðurinn er sá fjölmennasti í íslenskri ferðaþjónustu og hefur skipað sér sess sem einn sá allra mikilvægasti í íslenskri ferðaþjónustu. Þar gefst samstarfsfyrirtækjum markaðsstofanna í öllum landshlutum tækifæri til að kynna sig fyrir fólki í ferðaþjónustu sem starfar á höfuðborgarsvæðinu og koma á nýjum viðskiptasamböndum og styrkja þau sem fyrir eru.
Ekki er vanþörf á því í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 en vegna hans þurfti að aflýsa viðburðinum árið 2021. Alla jafna fer hann fram í janúar en var frestað fram í mars, einmitt vegna faraldursins. Nú þegar ferðaþjónustan er aftur að komast á skrið er tilhlökkunin eftir því að hittast í Kórnum í Kópavogi orðin mikil.
Á viðburðinum verða um 250 fyrirtæki með bás þar sem fulltrúar þeirra kynna starfsemina. Gert er ráð fyrir allt að 800 gestum, enda hefur viðburðurinn sannað sig sem einn sá allra mikilvægasti í íslenskri ferðaþjónustu á undanförum árum.
Enginn aðgangseyrir er fyrir gesti sem mæta á viðburðinn, en þeim er þó bent á að skrá sig áður en þeir mæta svo auðveldara sé að áætla fjölda gesta. Hægt er að skrá sig á www.markadsstofur.is