Markaðsgreining fyrir áfangastaðinn Suðurland
Markaðsstofa Suðurlands undirritaði nú á dögunum samning við Manhattan marketing um gerð markaðsgreiningar fyrir áfangastaðinn Suðurland. Verkefnið er unnið í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) sem eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands 2015.
Greiningin verður framkvæmd í tveimur hlutum; markaðsgreining og markaðsáætlun. Greiningin felur m.a. í sér skoðun á styrk- og veikleikum svæðisins ásamt því að greina helstu markhópa landshlutans. Niðurstöður greiningarinnar munu nýtast Markaðsstofunni, sveitarfélögum á Suðurlandi, SASS sem og aðilum í ferðaþjónustu til grundvallar að miðaðri og samhæfðri markaðssetningu svæðisins. Þá er eitt megin markmið verkefnisins að fá ferðamenn til að ferðast lengra, dvelja lengur og þar af leiðandi skila auknum tekjum fyrir svæðið. Búist er við fyrstu niðurstöðum fljótlega eftir áramót.
Manhattan marketing býður upp á heildarlausnir í markaðs- og auglýsingamálum með sérhæfingu í faglegri og stefnumiðaðri markaðsráðgjöf sem byggir á áratuga reynslu í stjórnun markaðsstarfs nokkurra af stærstu fyrirtækjum landsins.
Á meðfylgjandi mynd eru Ragnar Már Vilhjálmsson frá Manhattan Marketing og Dagný H. Jóhannsdóttir frá Markaðsstofu Suðurlands við undirritun samningsins.