Menntamorgunn ferðaþjónustunnar: Markaðssetning, vörumerki og tengslamyndun
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Samtök ferðaþjónustunnar og Markaðsstofur landshlutanna stóðu fyrir Menntamorgni ferðaþjónustunnar á bleikum degi 23. október. Á fundinum var sjónum beint að því hverjir heimsækja Ísland og hvernig markaðssetning er árangursríkust til að ná til þeirra.
Ísland enn í tísku
Daði Guðjónsson, forstöðumaður markaðssviðs Íslandsstofu, ræddi niðurstöður nýlegrar markaðskönnunar Íslandsstofu um hugrenningatengsl þátttakenda til Íslands. Þar kemur fram að Ísland er enn í tísku, fólk telur Ísland vera öruggt, með svokallaðan wow-factor (hrifkraft) og tengir landið við vellíðan og ævintýri. Hægt er að skipta gestunum gróflega í tvo hópa; Hinn lífsglaða heimsborgara, sem sækir í menningu og líflegt umhverfi, og sjálfstæða landkönnuðinn, sem kýs meiri rólegheit í náttúrunni. Langstærsti hópurinn sem heimsækir Ísland eru nokkuð vel efnaðir Bandaríkjamenn sem að öllum líkindum halda áfram að ferðast um heiminn næstu misserin þrátt fyrir að efnahagur hafi farið aðeins niður á við í Bandaríkjunum. Það ætti ekki að bitna á þessum hópi. Þó ber að hafa í huga að fleiri lönd munu keppa um að fá ferðafólkið í heimsókn. Fyrir þá sem hafa áhuga á að glöggva sig frekar á markaðskönnuninni er linkur hér.
Gagnadrifin markaðssetning
Andreas Örn Aðalsteinsson, yfirmaður stafrænnar þróunar og meðeigandi Sahara, fjallaði um gagnadrifna markaðssetningu og hvaða mælikvarða er best að nota. Mælikvarðar svo sem: Hook Rate, Clicks, Video Completion Rate, Quality Click Ratio, Search Impression Share og Engagement Rate geta verið afar gagnlegir í markaðssetningu og Andreas hvetur fólk til að renna ekki blint í sjóinn í þessum efnum.
Áhugaverðar sögur með eigin raddblæ
Birgir Már Daníelsson, markaðsstjóri í Hvammsvík, fjallaði um uppbyggingu vörumerkja á samfélagsmiðlum. Hann sagði mikilvægt að skilgreina vörumerkið, persónuleika þess og finna markhópa. Það er mikilvægt að vera ósvikinn, nota ekki gervigreindina nema að litlu leyti og segja áhugaverðar sögur með eigin raddblæ. Markaðssetning á samfélagsmiðlum snýst um að skapa samfélag og til þess þarf stöðugleika. Á samfélagsmiðlum er góð regla að póstar tvisvar til þrisvar í viku. Passa verður að sníða efni að hverjum miðli fyrir sig; Útvarp er ekki það sama og sjónvarp, samfélagsmiðlar ekki prentmiðlar og facebook ekki sama og tik tok. Birgir segir afar mikilvægt að segja sögu sem aðgreinir þig frá öðrum.
Fundarstjóri var Margrét Björk Björnsdóttir, fagstjóri áfangastaðarins Vesturlands.
Hægt er að horfa á upptöku af Menntamorgninum hér.