Mid-Atlantic 2015
Árlega stendur Icelandair fyrir ferðakaupstefnunni Mid-Atlantic og var hún haldin núna í 23. skipti 5.-7. febrúar sl. Markaðsstofa Suðurlands tók þátt í sýningunni og tveimur ferðum á laugardeginum þar sem farið var með gesti í ferðir um Suðurland í samstarfi við aðila markaðsstofunnar. Í annarri ferðinni var farið með gesti austur á Mýrdalsjökul þar sem Arcanum fór með þá í annað hvort jöklagöngu eða snjósleðaferð. Svarta fjaran mettaði hópinn áður en lagt var af stað á jökulinn. Á leiðinni heim var svo stoppað á Hótel Rangá og þar var boðið upp á hressingu fyrir hópinn. Í hinni ferðinni var haldið á Þingvelli þar sem gestir fengu smá fræðslu um þjóðgarðinn. Þaðan var haldið í Laugarvatn Fontana þar sem gestir fóru með staðarhaldara að grafa upp rúgbrauð sem bakað er við hverinn á Laugarvatni og slökuðu svo á í böðunum. Næst voru Friðheimar heimsóttir og þar fengu gestir fræðslu um ræktunina og gómsæta tómatsúpu að hætti hússins. Að lokum var svo farið í heimsókn í Fákasel þar sem gestir fengu kynningu á því sem þar fer fram og heimsóttu hesthúsin. Guðmundur Tyrfingsson sá um akstur á gestunum í báðum ferðum.