NÝ SAMEIGINLEG LÖGREGLUSAMÞYKKT FYRIR SVEITARFÉLÖGIN Á SUÐURLANDI EINFALDAR STARF LÖGREGLUNNAR
Ný sameiginleg lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi hefur nú tekið gildi.
Samþykktin, sem var unnin í nánu samstarfi við embætti lögreglustjórans á Suðurlandi, mun einfalda störf lögreglunnar í landshlutanum til muna. Áður voru mismunandi samþykktir í gildi hjá sveitarfélögunum en nú er sameiginleg lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin fjórtán sem heyra til umdæmis lögreglustjórans á Suðurlandi. Samþykktin var unnin af starfshóp sem stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) skipaði en í starfshópnum eru bæjar- og sveitarstjórarnir Ásta Stefánsdóttir, Ágúst Sigurðsson og Björn Ingi Jónsson. Hópnum til ráðgjafar var Gunnar Örn Jónsson lögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurlandi sem var tilnefndur af lögreglustjóranum á Suðurlandi.
Meðal þess sem ný samþykkt fjallar um eru málefni sem hafa verið áberandi í umræðunni í kjölfar fjölgunar ferðamanna í landshlutanum s.s. um hvar heimilt er að gista í tjöldum, húsbílum og slíkum faratækjum.
„Mikið hefur verið í umræðunni að ferðamenn séu að tjalda og leggja ferðavögnum á ýmsum stöðum í landshlutanum sem ekki er leyfilegt. Staðreyndin er sú að lang flestir ferðamenn vilja breyta rétt og fara að lögum og reglum þar sem þeir koma. Hins vegar hefur það kannski ekki alltaf verið þeim ljóst hvað má og má ekki í þessum efnum og jafnvel hefur það verið misjafnt milli sveitarfélaga. Þessi nýja samþykkt gefur bæði þjónustuaðilum, sveitarfélögunum og eftirlitsaðilum tækifæri á að koma þessum samræmdu upplýsingum betur til skila til gesta. Gefur það gestum betur kost á að breyta rétt þegar kemur að vali á náttstað sem svo aftur skilar sér í ánægjulegri upplifun.“ Segir Gunnar Þorgeirsson formaður SASS.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi, Kjartan Þorkelsson fagnar þessu frumkvæði sveitarfélaganna og bendir á að ekki þurfi að fara mörgum orðum um hversu mikið það kemur til með að einfalda störf lögreglu að hafa eina lögreglusamþykkt fyrir allt umdæmið.
Lögreglusamþykktin gildir fyrir lögsagnarumdæmi eftirtalinna fjórtán sveitarfélaga: Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Ásahrepps, Sveitarfélagsins Árborgar, Flóahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss.
Lögreglusamþykktina má finna hér (.pdf)