Nýir starfsmenn á Markaðsstofu Suðurlands
Sigrún og Árdís munu starfa sem verkefnastjórar í markaðsteymi, þar sem þær koma til með að sinna kynningarmálum, samskiptum við hagsmunaaðila og veita ráðgjöf.
Sigrún lauk stúdentsprófi af nýmálabraut við Menntaskólann í Reykjavík og BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði um árabil sem flugfreyja hjá Iceland Express og Icelandair, þar sem hún öðlaðist víðtæka reynslu í samskiptum við ferðamenn. Síðastliðin misseri starfaði hún sem fréttamaður á Suðurlandi fyrir fréttastofu RÚV og dagskrárgerðarmaður í Landanum, ásamt því að sinna starfi bókavarðar á Bókasafni Eyrarbakka.
Árdís Erna Halldórsdóttir hefur unnið náið með Markaðsstofu Suðurlands undanfarinn áratug sem tengiliður fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð. Þar starfaði hún sem atvinnu- og ferðamálafulltrúi, og áður sem framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls ehf. Árdís er með M.S. gráðu í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands, auk þess sem hún nam fagið við University of Idaho.
Markaðsstofan býður þær Sigrúnu og Árdísi velkomnar og þakkar þeim Nejru og Davíð sömuleiðis kærlega fyrir vel unnin störf.