Sigríður á Geysi hlaut viðurkenningu FKA
Sigríður Vilhjálmsdóttir, eigandi Hótel Geysis og ferðaþjónustunnar á Geysi, hlaut á föstudaginn þakkarviðurkenningu FKA. Nöfn Sigríðar og eiginmanns hennar Más Sigurðssonar á Geysi eru samofin sögu ferðaþjónustu á Íslandi. Löngu áður en farið var að líta á hana sem alvöru atvinnugrein tóku þau daglega á móti fjölda innlendra og erlendra gesta og buðu upp á gistingu, mat og fræðslu. Sannfærð um að ferðamönnum ætti eftir að fjölga til muna á komandi árum hafa þau af mikilli elju og þrautseigju byggt upp glæsilega aðstöðu á Geysi; hótel, safn, verslun og þrjá veitingastaði.
Að sögn Sigríðar höfðu ekki allir sömu trú á því að ferðaþjónusta á Geysi gæti orðið arðbær. „Árið 1987 áttum við bara 150 stóla í 600 manna sal – og tvær 60 bolla kaffikönnur“ rifjar hún upp. „Einhver benti mér á að ég ætti að geta fengið lán fyrir stærri könnu og nokkrum kollum – svo ég lét á það reyna. Bankinn velti þessu lengi fyrir sér en hafnaði svo beiðninni. Þeir höfðu engan áhuga.“ Sigríður leitaði þá til aðila sem seldu þessa hluti og þeir sáu til þess að þessir 600 gestir gætu bæði fengið tíu dropa og tyllt sér á meðan.
Ferðaþjónustan er fjölskyldufyrirtæki og kemur öll fjölskyldan að ákvörðunum sem lúta að framtíðarskipulagi og stækkunaráformum. Hlutirnir hafa gerst hratt á Geysi og segir Sigríður ótrúlegt hvað mikið hafi breyst síðan 1972 þegar hún kom fyrst að rekstri á svæðinu. „Ferðamönnum byrjaði að fjölga upp úr 1980“ segir hún „og 1986 hófum við rekstur á hótelinu. Síðan höfum við stækkað þetta í skrefum og erum hvergi nærri hætt; erum t.d. nú að reisa nýtt hótel á svæðinu.“
Sigríður Vilhjálmsdóttir er ásamt eiginmanni sínum brautryðjandi á sviði ferðaþjónustu á Íslandi. Hún hefur lagt metnað sinn í að byggja upp glæsilegt fyrirtæki og fyrsta flokks aðstöðu fyrir ferðamenn á Geysi og er þannig fyrirmynd fyrir þá fjölmörgu sem hyggjast hasla sér völl á sviði ferðamála í framtíðinni.
Nánar hér