Úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023
Tilkynnt var um úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2023, á Hótel Vík í Mýrdal 14.apríl síðastliðinn. Alls hlutu 28 verkefni styrk, þar af sex á Suðurlandi. 550 miljónir voru til úthlutunar þetta árið og sjóðnum bárust um hundrað umsóknir.
Eftirfarandi áfangastaðir á Suðurlandi hlutu styrk að þessu sinni, fyrir tæpar 123 milljónir samtals:
Ölfusdalir, 12,3 milljónir. Icebike adventures ehf.
„Umbætur í Ölfusdölum - Reykjadalur og nærliggjandi svæði. Styrkur til að kortleggja, hreinsa, laga og merkja gamlar og lítt farnar leiðir í Ölfusdölum. Markmið þess er að bæta upplifun gesta, dreifa álagi en jafnframt að hlífa viðkvæmri náttúru á svæðinu.“
Hrunalaug, 10,5 milljónir. Hrunalaug ehf.
„Styrkur veittur í eftirfarandi verkefni: 1. Unnið verður deiliskipulag fyrir Hrunalaug og svæðið í kring, 2. Reist verður salernishús á svæðinu við Hrunalaug, 3. Viðhaldsvinna við hættulegar grjóthleðslur og stíga við Hrunalaug.“
Fimmvörðuháls, 3,35 milljónir. Ferðafélagið Útivist.
„Stikun og merkingum gönguleiðar yfir Fimmvörðuháls. Á undanförnum árum hafa orðið umtalsverðar breytingar á Fimmvörðuhálsi vegna breytinga á snjóalögum. Þetta kallar á stikun leiðarinnar og merkingu með vegvísum, skiltum og kortagerð vegna þeirra. Við stikun á leiðinni verður hugað sérstaklega að traustum undirstöðum.“
Rauðibotn, 5,76 milljónir. Skaftárhreppur
„Hólmsá-Rauðibotn-Hólmsárlón, skipulag, hönnun og merkingar. Styrkur í að skipuleggja svæðið, ákvarða legu gönguleiðar (um 5 km. hringleið), og aðkomuleiðar. Afmarka á bílaplan, útbúa upplýsingaskilti og merkingar, stika leiðir, loka villustígum og lagfæra gróðurskemmdir.“
Reynisfjall, 72 milljónir. Mýrdalshreppur.
„Styrkur til að byggja útsýnispall í hlíðum Reynisfjalls og í skipulagsgerð sem skilgreinir aðkomu og bílastæði og framtíðarmöguleika á þjónustuhúsi. Verkefnið felst í að búa til nýjar gönguleiðir og útsýnispall í fjallshlíðinni þar sem fyrir er straumur fólks við óöruggar aðstæður. Þannig verður umferð um svæðið stýrt á skýran hátt. Í bratta niður fránúverandi vegi á fjallinu verða bæði lagðar tröppur sem og rampur niður að útsýnispalli til að skapa aðgengi fyrir alla.“
Múlagljúfur, 18,66 milljónir. Sveitarfélagið Hornafjörður.
„Múlagljúfur - 2. áfangi. Framkvæmd og frekari hönnun áfangastaðar. Styrkur til að vernda gróður og milda bratta á leiðinni til að auka öryggi gesta og koma í veg fyrir enn meira landrof. Markmiðið er styrkja innviði svæðisins svo það geti tekið á móti gestum á þann hátt að sómi sé að fyrir náttúru og menn.“
Þá ber að nefna að fleiri áfangastaðir hljóta fjárveitingu á árinu í gegn um Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Áætlað er að rúmur milljarður renni úr Landsáætlun til 34 áfangastaða á Suðurlandi á árunum 2021-2024. Hægt er að skoða allar úthlutanir í vefsjá Ferðamálastofu. Skoða vefsjá.
Margt hefur unnist í innviðauppbygingu á áfangastöðum landsins eftir að Framkvæmdasjóðurinn var settur á laggirnar. Öryggi gesta hefur víða aukist, góðir stígar hafa dregið úr gróðurskemmdum og nýir áfangastaðir hafa verið skapaðir til að bæta dreifingu gesta. Á síðustu fimm árum hefur rúmlega 850 milljónum verið úthlutað til verkefna er varða náttúruvernd, öryggi og uppbyggingu innviða á áfangastöðum á Suðurlandi.