Vestnorden ferðakaupstefna haldin 4.-6. október
Vestnorden ferðakaupstefnan verður haldin í Laugardalshöll Reykjavík dagana 4.til 6. október. Markaðsstofa Suðurlands tekur þátt eins og undanfarin ár og verður með fjórfaldan sýningabás í samstarfi með samstarfshóp um ferðamál á Suðurlandi.
Vestnorden er haldin af Ferðamálasamtökum Norður-Atlantshafsins (NATA) sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Kaupstefnan er haldin til skiptis af löndunum þremur og þar af annað hvert ár á Íslandi. Kaupstefnuna sækja ferðaþjónustuaðilar á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum og ferðaheildsalar og blaðamenn víðsvegar að úr heiminum. Vestnorden gefur einnig ferðaheildsölum kost á að fara í kynnisferðir til landanna þriggja. Kaupstefnan er dýrmætur vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila og ferðakaupendur að styrkja gömul tengsl og stofna til nýrra.