Vitaleiðin – hliðið inn á Suðurlandið
Vitaleiðin er ný ferðamannaleið í mótun sem beinir athygli ferðafólks að nýju svæði, dregur fram enn betur þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og alla upplifunarmöguleikana í afþreyingu og náttúru. Vitaleiðin er 45 km leið sem nær frá Selvogi að Knarrarósvita.
Nafngiftin kemur vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar, að auki er þriðji vitinn á leiðinni Hafnarnesviti í Þorlákshöfn. Vitaleiðin bíður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana eða nýtt sér strandlengjuna og þá göngustíga, sem búið er að gera, meðfram sjónum til að ganga leiðina eða jafnvel hjólað.
Vinna við leiðina er í fullum gangi og stefnt er að opna hana formlega vorið 2020. Verkefnið er unnið af Markaðsstofu Suðurlands í samvinnu við sveitarfélögin Árborg og Ölfus. Vitaleiðin er hluti af verkefnunum Umhverfis- og þematengdar samgöngur sem er áhersluverkefni SASS sem og Ferðamannaleiðir sem er verkefni styrkt af Ferðamálastofu. Að auki koma hinir ýmsu hagaðilar að vinnunni á einn eða annan hátt. Í lok nóvember voru haldnar þrjár vinnustofur með rekstraraðilum sem starfa í og við hvert þorp þar sem farið var meðal annars yfir væntingar þátttakenda til leiðarinnar, hún greind miðað við hvað er til staðar, hvað vantar uppá sem og SVÓT greiningu.
Þátttakendur voru sammála því að leiðin býr yfir fjölmörgum styrkleikum í formi sögunnar, náttúru, kyrrðar, víðsýni, fjölbreyttra afþreyingamöguleika, veitingastaða og gistimöguleika svo að dæmi séu nefnd.
Veikleikarnir speglast helst í innviðum eins og skorti á útskotum við veginn, þröngri Óseyrarbrúnni, skortur á almenningssamgöngum á milli svæða. Þegar þjónustan var skoðuð þá var það helst lítið samráð/samtal á milli þjónustuaðila og opnunartímar. Einnig vantar mikið upp á almennar merkingar og betri upplýsingagjöf innan svæðisins.
Helstu ógnir við Vitaleiðina töldu þátttakendur vera ekki nægileg þjónusta frá Vegagerðinni, möguleikar á áhugaleysi og jafnvel ósamstöðu á svæðinu. Með auknum ferðamannaflaumi væri hætta á að það dragi úr rólega umhverfinu og fækkun ferðamanna til Íslands gæti ógnað rekstrargrundvelli þjónustuaðila. Veður og sjólag getur einnig ógnað leiðinni sem og gengisbreytingar og óstöðugt efnahagsástand.
Það sem flestir þátttakendur voru sammála um Vitaleiðina er að hún gæti komið á endalausum tækifærum. Heilmikil tækifæri eru hjá samfélaginu að það myndist samlegðaráhrif með aukinni gestakomu inn á svæðið. Dæmi: aukin atvinnutækifæri, aukin þjónustu við heimafólk, meiri samstaða á milli bæjanna, meira líf, fjölbreyttari menning og aukin búsetuskilyrði. Fyrir ferðamennina væri kominn grundvöllur að enn fjölbreyttari afþreyingu og upplifun fyrir gesti. Vitaleiðin myndi stuðla að meiri dreifingu ferðamanna og þá kynna fyrir gestum betur sérstaklega fyrir þá sem vilja ferðast á nýjum og fáfarnari svæðum.
Þegar þátttakendur voru spurðir út í væntingar til Vitaleiðarinnar þá voru þeir mjög jákvæðir gagnvart verkefninu og væntingar miklar að Vitaleiðin verði að veruleika. Að leiðin verði góður valkostur fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda, að þeir verði vel upplýstir um svæðið og hvað það hefur upp á að bjóða, þeir staldri við og njóti upplifunarinnar. Væntingar eru einnig um að Vitaleiðin tengi betur saman svæðið sem eina heild og styrki þéttbýliskjarnana á svæðinu með meiri uppbyggingu, fleiri tækifærum fyrir íbúa og aukið framboð af þjónustu fyrir íbúa og samfélagið.
Með þeim góðu gögnum sem söfnuðust saman á vinnustofunum í nóvember er kominn góður grunnur til að vinna verkefnið lengra og gera Vitaleiðina að öflugri ferðamannaleið. Leiðin bíður einnig upp á að seinna meir verði leiðin tengd við aðrar ferðamannaleiðir, hvort sem er inn á Reykjanesið eða sem viðbót í „perlufesti Suðurlands“.
Við þökkum öllum þeim sem hafa nú þegar tekið þátt í vinnunni og vonumst til áframhaldandi góðu samstarfi. Nánari upplýsingar gefur verkefnastjóri verkefnisins Laufey Guðmundsdóttir verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands í tölvupósti laufey@south.is eða síma 560-2050.
Vitaleiðin greind á Stokkseyri
Vitaleiðin greind á Eyrarbakka
Vitaleiðin greind í Þorlákshöfn
Þátttakendur í vinnustofunni á Stokkseyri
Þátttakendur í vinnustofunni á Eyrarbakka
Þátttakendur í vinnustofunni í Þorlákshöfn