Vel heppnuð árshátíð og málþing Markaðsstofu Suðurlands
Mikið var um dýrðir þegar árshátíð Markaðsstofu Suðurlands var haldin að Hótel Laka við Kirkjubæjarklaustur þann 13. apríl síðastliðinn.
Um var að ræða þétta dagskrá allan daginn þar sem aðalfundi, málþingi, örferð og árshátíð er pakkað saman. Aðildarfyrirtækjum Markaðsstofunnar er boðin þátttaka og tóku um 80 manns þátt í deginum af öllu svæðinu. Þessi vettvangur hefur mælst vel fyrir þar sem fólki í ferðaþjónustu á Suðurlandi gefst kostur á að hittast og miðla reynslu og þekkingu í bland við dagskrá dagsins.
Dagskráin hófst á aðalfundi þar sem farið var yfir starfsárið 2017 ásamt helstu áherslum ársins 2018. Þá fór fram skipun og kosning í stjórn Markaðsstofunnar fyrir næsta starfsár. Nýja stjórn MSS má sjá hér.
Að loknum aðalfundi fór fram málþing sem bar heitið „Skiptir ferðaþjónusta máli fyrir samfélagið?“ þar sem áhugaverð erindi voru flutt, en um fundarstjórn sá Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.
Fyrst á mælendaskrá var Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps og eigandi Hótel Laka með erindið Nafli alheimsins þar sem hún miðlaði m.a. reynslu sinni af áhrifum ferðaþjónustu á samfélagið. Næstur á mælendaskrá var Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknarseturs HÍ á Hornafirði þar sem hann fjallaði um rannsókn sem verið er að vinna um Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu á Suðurlandi ásamt því að kynna stuttlega verkefni sem hann, ásamt Arndísi Láru eru að vinna um Yndisævintýraferðir. Þá fóru þær Laufey Guðmundsdóttir og Anna Valgerður Sigurðardóttir, verkefnastjórar áfangastaðaáætlana DMP yfir ferlið og stöðuna á því verkefni.
Berglind Häsler, eigandi Havarí sem er lífrænt býli, sagði svo frá því skemmtilega starfi og þróun sem hefur verið hjá þeim í Berufirðinum. Að lokum fjallaði Hjalti Vignisson framkvæmdarstjóri sölu- og þróunar hjá Skinney Þinganes, um samspil ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu og þau tækifæri sem það hefur í för með sér í erindi sínu Úr vörn í sókn.
Að málþingi loknu buðu heimamenn uppá ævintýralega örferð um svæðið þar sem gestum gafst kostur á að heimsækja aðila í ferðaþjónustu á svæðinu. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir frábærar móttökur.
Um kvöldið var svo boðið uppá flotta dagskrá þar sem Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og Jónína Aradóttir fluttu ljúfa tóna undir borðhaldi. Sunnlendingurinn Einar Bárðarson hélt uppi dagskránni með skemmtilegri sýn á ferðaþjónustuna á milli þess sem dregið var úr veglegum vinningum í happdrættinu góða.
Þá voru afhentar viðurkenningar Markaðsstofunnar, en viðurkenninguna „Sproti ársins 2017“ hlaut The Cave People fyrir faglega og flotta menningartengda uppbyggingu við Laugavatnshella og tók Hilmar Stefánsson við viðurkenningunni fyrir þeirra hönd. Viðurkenninguna „Framlag til ferðaþjónustunnar“ hlaut Sigurlaug Gissurardóttir fyrir sitt ötula starf og óeigingjarnt framlag í þágu ferðaþjónustunnar í gegnum árin.
Kvöldið endaði svo á léttum nótum og dansi þar sem hljómsveitin hélt uppi stemningunni með spili og söng fram á nótt.