Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Í Skaftárhreppi er gott að vera og njóta, sjá ævintýri í hverjum hól og hraundrangi, fylgjast með fuglum á tjörn og læra um eldstöðvar, ösku, gíga og náttúruhamfarir af öllu tagi. Þar er næði til að upplifa náttúruna á eigin hraða; ganga, hlaupa, hjóla eða fela sig í skóginum og hugsa.

Gisting:
Hótel, gistihús, smáhýsi, tjaldstæði, fjallaskálar og sumarhús.

Afþreying:
Það er gaman að leika sér í skóginum á Klaustri. Þar er göngustígur langt inn í skóginn sem liggur að Sönghelli og upp á brúnina, þar sem er allt annar heimur. Þeir sem þora geta gengið yfir heiðina og niður hjá Stjórnarfossi, vaðið út í ána til að kæla tærnar og farið svo á Kirkjugólfið. Systrastapi er dularfullur, fullur af sögum. Boðið er upp á gönguleiðsögn og reiðhjólaferðir með leiðsögn sumarið 2020. Víða eru góðar leiðir fyrir þá sem vilja hjóla úti í náttúrunni á gömlum vegum. Á Klaustri er sundlaug með tveimur heitum pottum, líkamsrækt og þar er skólalóðin með  sparkvelli, leiktækjum og ærslabelg. Frá sundlauginni liggur Krakkastígurinn sem er þrautabraut að gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem er sýning um mosa í öllum myndum og fleira spennandi. Þar fá menn bækur, bæklinga og upplýsingar til að geta verið eigin leiðsögumenn í sveitinni.

Áhugaverðir staðir:  
Það verða allir að skoða Fjaðrárgljúfur þar sem Justin Bieber tók danssporin,  Dverghamra, þar sem dvergar búa í steinum og Landbrotshólana sem eru óteljandi en furðulegir og góður staður fyrir lautarferð. Kirkjugólfið þar sem gestir eiga að finna ákveðinn stein.

Matur:
Veitingastaðir sem bjóða hamborgara, pitsur, grænmetisrétti eða þrírétta máltíðir með öllu tilheyrandi.  

Í Skaftárhreppi er upplagt að skipuleggja útivist og náttúruskoðun. Fara með nesti að morgni hvort sem er á bíl, hjóli, eða gangandi. Hér er tækifæri fyrir fjölskylduna að vera saman og gleyma sér án þess að hafa áhyggjur af nokkrum hlut.

AÐ VERA OG NJÓTA - EKKI FARA OG ÞJÓTA 

Skaftárstofa – Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri
Skaftárstofa er glæsileg ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs við þjóðveg eitt, við Sönghól, í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir Skaftárhrepp. Á meðan unnið er að nýrri fræðslusýningu um þjóðgarðinn í rýmið býðst gestum að skoða sýningu Jöklarannsóknafélags Íslands, Vorferð. Sýningin var gerð í tilefni af 70 ára afmæli félagsins og varpar meðal annars ljósi á sögu félagsins, segir frá skálabyggingum, vorferðum á jökli, sporðamælingum, rannsóknarverkefnum, jöklabakteríunni og tímaritinu Jökli. Stuttmyndir:Eldgosið í Grímsvötnum 2011Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs Opnunartímar gestastofu Þátttakandi í VAKINN - gæða og umhverfiskerfi íslenskrar ferðaþjónustu.
Sundlaugin Kirkjubæjarklaustri
Eina sundlaugin með útsýni á foss úr heita pottinum ! Íþróttamiðstöðin á Kirkjubæjarklaustri er í miðju þorpsins þar sem einnig er Kirkjubæjarskóli á Síðu. Í Íþróttamiðstöðinni er sundlaug með heitum potti og vaðlaug, tækjasalur og íþróttasalur. Íþróttasalurinn er til útleigu. Vinsamlegast hafið samband í síma 487 4656. Opnunartímar og gjaldskrá á klaustur.is