Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þéttbýlin á svæðinu hafa öll sinn sjarma, sveitakyrrðin á Kirkjubæjarklaustri, stórbrotið bæjarstæði Víkur, miðstöð útivistar á Hvolsvelli og iðandi bæjarlíf í Vestmannaeyjum.

KIRKJUBÆJARKLAUSTUR / Skaftárhreppi
Kirkjubæjarklaustur er eini þéttbýliskjarninn í Skaftárhreppi. Í Skaftárhreppi eru margir gististaðir og upplagt að dvelja þar og fara í dagsferðir. Margar náttúruperlur Íslands eru stutt frá Klaustri: Fjaðrárgljúfur, Fagrifoss, Langisjór, Eldgjá, Lakagígar og Skaftáreldahraunið. Góðar dagsferðir eru í Skaftafell eða Jökulsárlón. Á Klaustri er Ástarbrautin, mjög falleg 5 km gönguleið sem byrjar við Systrafoss. Gengið er yfir heiðina ofan við þorpið og er útsýni mjög skemmtilegt. Kirkjugólfið er á þessari leið en það er náttúrusmíð þar sem sér ofan á stuðlaberg. Kirkjugólfið er friðlýst náttúruvætti. Önnur áhugaverð gönguleið er um Landbrotshólana sem eru óteljandi gervigígar. Leiðin er kölluð Hæðargarðsleið og byrjar við Skaftárbrúna. Sögur segja að aldrei hafi heiðinn maður búið á Kirkjubæ á Síðu. Bæjarnafnið breyttist í Kirkjubæjarklaustur eftir að þar var nunnuklaustur á árunum 1186 – 1554. Örnefni og þjóðsögur tengjast klausturtímanum.  Íbúar á Klaustri eru um 280 og þar er Kirkjubæjarskóli á Síðu er grunnskóli Skaftárhrepps, Heilsuleikskólinn Kæribær, Hjúkrunar- og dvalarheimilið Klausturhólar. Við grunnskólann er íþróttamiðstöð þar sem er íþróttasalur, líkamsrækt og sundlaug, opið almenningi allt árið. Prestur hefur setið á Kirkjubæjarklaustri frá 1931, læknir frá 1950 og dýralæknir frá 1974.  Skaftárhreppur er hluti af Kötlu jarðvangi og stór hluti hreppsins er vesturhluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs er á Klaustri. Á vefnum eldsveitir.is má finna meira um sögu, menningu og náttúru í Skaftárhreppi.
VÍK / Mýrdalshreppi
Mýrdalshreppur er eitt hinna þriggja sveitarfélaga innan Kötlu jarðvangs. Vík er við miðju jarðvangsins og um leið syðsti bær landsins. Hreppurinn markast af Mýrdalsjökli til norðurs, sem eldfjallið Katla dvelur undir; Jökulsá á Sólheimasandi til vesturs, Blautukvísl til austurs og svörtum fjörum til suðurs. Vík er eina sjávarþorpið á Íslandi sem aldrei hafði höfn. Þrátt fyrir ævarandi hafnleysu sóttu heimamenn sjóinn til fiskveiða og vöruflutninga allt fram á miðja tuttugustu öld. AfþreyingMýrdalshreppur er sannarlega staður útivistar og ævintýra. Í nágrenni Mýrdalsjökuls má nefna fjórhjólaferðir á Sólheimasandi, jöklagöngur á Sólheimajökli og kayakaferðir á lóni jökulsins; að ógleymdum vélsleðaferðum á sjálfri jökulbreiðunni og íshellaferðum allan ársins hring. Í nágrenni Víkur má koma blóðinu á hreyfingu í Zip-line ævintýri eða svifvængjaflugi fyrir þau allra hugrökkustu. Í útjaðri Víkurþorps er flottur golfvöllur í fallegri náttúru. Reiðtúr í okkar fögru Víkurfjöru með útsýni til Reynisdranga er að auki ógleymanleg upplifun. Söfn og sýningarÍ Vík má einnig finna söfn og sýningar. Þar má helst nefna hina einstöku hraunsýningu Icelandic Lava Show þar sem 1100 °C heitu, fljótandi hrauni er hellt inn í sal áhorfenda. Sjón er sögu ríkari. Kötlu jarðvangur heldur úti jarðfræði sýningu í Kötlusetri, þar sem aðgangur er ókeypis. Gegnt Kötlusetri má svo finna Sjóminjasafn þar sem stærsti gripurinn er hið sögufræga vöruflutningaskip Skaftfellingur. Þar er saga útræðis, siglinga og skipsstranda á fjörum Skaftafellssýslna sögð á lifandi hátt. GönguleiðirNáttúrufegurð einkennir svæðið með grösugum hlíðum í faðmlagi við svartar fjörurnar og hvítan jökulinn.  Frá bænum má ganga upp á Reynisfjall og njóta útsýnis yfir Atlantshafið, Reynisdranga og brött fuglabjörg. Leiðin er stikuð með gulum merkingum og hefst við Víkurbraut. Önnur gönguleið hefst aftan við Víkurkirkju og leiðir göngufólk upp á Höttu, hæsta fjall Mýrdalshrepps. Þaðan er útsýni yfir Heiðardalinn og Mýrdalsjökul til norðurs. Enn fleiri leiðir má að auki finna í Þakgili, skammt frá Vík. Kort og upplýsingar um þessar og fleiri gönguleiðir í Mýrdalshreppi má nálgast í upplýsingamiðstöð Kötluseturs í Brydebúð, Víkurbraut 28.
HVOLSVÖLLUR / Rangárþingi eystra
Í Rangárþingi eystra búa um 2100 manns og nær sveitarfélagið frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað og einnig er ferðaþjónustan blómleg atvinnugrein enda má þar finna einstakar náttúruperlur, fallegar gönguleiðir og þekkta sögustaði. Áfangastaði eins og Seljalandsfoss, Skógafoss, Þórsmörk og Eyjafjallajökul má finna í sveitarfélaginu. Hvolsvöllur er þéttbýlis- og þjónustukjarni sveitarfélagsins og þar búa um 1200 manns. Helstu atvinnuvegir eru þjónusta fyrir landbúnað, almenn þjónusta fyrir íbúa, ferðaþjónusta og einnig má nefna að á Hvolsvelli rekur Sláturfélag Suðurlands stærstu kjötvinnslu landsins. Hvolsvöllur hefur það sérkenni að vera eina þéttbýlið á Íslandi sem ekki hefur verið byggt upp við sjó eða árfarveg heldur er þéttbýlið algjörlega byggt upp sem miðstöð fyrir þjónustu. Hvolsvöllur er aðeins 100 km. frá Reykjavík og því tilvalin staðsetning til að ferðast út frá um Suðurlandið og Suð-Austurland. Eftir góðar dagsferðir er hægt að finna góða gisti- og afþreyingarmöguleika á Hvolsvelli og í öllu sveitarfélaginu. Aðeins 20 km. frá Hvolsvelli er svo Landeyjahöfn þaðan sem Herjólfur siglir til Vestmannaeyja stóran hluta úr árinu. Á Hvolsvelli finnur þú til dæmis LAVAcentre sem er eldfjalla- og jarðskjálftasýning fyrir alla aldurshópa. Í LAVA er bæði hægt að horfa á stutta kvikmynd um eldfjöll og eldvirkni sem og fara í gegnum stórbrotna gagnvirka sýningu. Hægt er svo að ganga upp á þak húsnæðisins og njóta útsýnisins til allra átta. Á Hvolsvelli má einnig finna Sveitabúðina Unu þar sem hægt er að kaupa grænmeti og kjötvörur beint frá býli sem og ýmis konar handverk. Í Unu má líka njóta listasýninga og hægt er að skoða myndir af Njálureflinum sem er 90 m hördúkur sem Brennu-Njálssaga var saumuð í. Á Hvolsvelli er hægt að finna gróið svæði í miðbænum þar sem hægt er að hvíla lúin bein, leyfa börnunum að skoða leiktækin og jafnvel fara í nestisferð. Þar má líka finna sýningu á sumrin þar sem áhugaljósmyndarar í sveitarfélaginu sýna verk sín. Höggmyndin Afrekshugur eftir Nínu Sæmundson stendur svo í hjarta bæjarins á miðbæjartúninu. Á Hvolsvelli er ýmis þjónusta eins og banki, veitingastaðir, kjörbúð, gjafavöruverslanir, ísbúð, apótek, heilsugæslustöð, fullbúin íþróttamiðstöð, sundlaug, hótel, gesthús, tjaldsvæði, bílaverkstæði og bensínstöðvar.