Framkvæmdarsjóður ferðamannastaða styrkir 15 verkefni á Suðurlandi
Í vikunni voru kunngerðar úthlutanir úr Framkvæmdarsjóð ferðamannastaða vegna 2021 og uppfærð aðgerðaráætlun Landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum var kynnt.
Framkvæmdarsjóður ferðamannastaða styrkti alls 53 verkefni víðsvegar um landið samtals að upphæð 807 milljónum. Af þessum verkefnum fóru 15 styrkir, alls að upphæð 231,37 milljónum, til verkefna á Suðurlandi sem framkvæmd verða á árinu 2021. Þess má geta að Sveitarfélagið Hornafjörður fékk hæsta styrkinn í þessari úthlutun, 97 milljónir, til að hanna og byggja upp göngu- og hjólastíg frá Svínafelli yfir í þjóðgarðinn í Skaftafelli sem tengir saman Svínafell, Freysnes, flugvöllinn við Skaftafell og Skaftafell. Þetta verkefni er liður í að byggja upp Jöklaleiðina sem er 200 km gönguleið sem liggur meðfram suðurbrún Vatnajökuls, frá Lónsöræfum í Skaftafell.