Vitaleiðin – hliðið inn á Suðurlandið
Vitaleiðin er ný ferðamannaleið í mótun sem beinir athygli ferðafólks að nýju svæði, dregur fram enn betur þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og alla upplifunarmöguleikana í afþreyingu og náttúru. Vitaleiðin er 45 km leið sem nær frá Selvogi að Knarrarósvita. Nafngiftin kemur vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar, að auki er þriðji vitinn á leiðinni Hafnarnesviti í Þorlákshöfn. Vitaleiðin bíður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana eða nýtt sér strandlengjuna og þá göngustíga sem búið er að gera meðfram sjónum til að ganga leiðina eða jafnvel nýta sér hjól sem ferðamáta.