Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ferðamálastofa býður ferðaþjónustuaðilum nú upp á aðgang að nýju verkfæri, Gott aðgengi í ferðaþjónustu. Því er ætlað að leiðbeina þeim með markvissum hætti um það hvernig hægt er að bæta aðgengi fyrir fatlaða og hvað þarf að gera.

Milljónir manna um víða veröld hafa áhuga á því að ferðast, hafa bæði tíma og fjármuni til að gera það en halda sig heima vegna þess að aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða er víða ábótavant.

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) búa um 15% jarðarbúa (1 milljarður manna) við einhvers konar fötlun. Aðgengi fyrir alla að aðstöðu og þjónustu í ferðaþjónustu er mannréttindamál og ætti að vera hluti af ábyrgri og sjálfbærri starfsemi fyrirtækja. En gott aðgengi er ekki bara mannréttindi. Það er einnig viðskiptatækifæri fyrir áfangastaði og fyrirtæki að geta tekið vel á móti öllum gestum, hvort sem þeir eru fatlaðir, hreyfihamlaðir, aldraðir eða með aðrar sérstakar þarfir.

„Samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum á að gæta þess sérstaklega að aðgangur fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi sé til jafns við aðra.“

Gott aðgengi í ferðaþjónustu

Í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjálfsbjörgu og ÖBÍ réttindasamtök hefur Ferðamálastofa sett af stað fræðslu-og hvatningarverkefni undir nafninu Gott aðgengi. Með verkefninu vilja samstarfsaðilar bregðast við því sem lengi hefur verið kallað eftir, en það er að bæta aðgengi fyrir fatlaða í ferðaþjónustu.

Tekið skal fram að þátttaka í verkefninu Gott aðgengi er hvorki viðurkenning né vottun. Þetta er fyrst og fremst loforð til viðskiptavina um að lágmarksviðmið varðandi aðgengi séu uppfyllt.

Gott aðgengi fyrir fólk með fötlun leiðir af sér betra aðgengi fyrir alla.

 

Hægt er lesa meira um verkefnið og þátttöku í því hér: www.ferdamalastofa.is/gott-adgengi-i-ferdathjonustu